
Það hefur heldur betur verið dramatík hjá Kristjáni Guðmundssyni þjálfara Damaiense í portúgölsku kvennadeildinni undanfarnar vikur og má líkja ævintýrum hans við Hollywood handrit.
Kristján tók við liðinu formlega við liðinu 24. ágúst síðastliðinn og þá var enn óljóst hvort liðið fengi keppnisleyfi í efstu deild í Portúgal. Leyfið fékkst loksins föstudaginn 6. september og þá þurfti að búa til nýtt lið enda stutt í mót og aðeins fjórir leikmenn á skrá hjá félaginu.
Damaiense hefur undanfarin ár spilað í Lissabon en færði sig í sumar um set og spilar í dag á Estadio Algarve í suður Portúgal en það er 30 þúsund manna völlur. Því fylgdi að endurnýja liðið.
9 leikmenn komnir kvöldið fyrir lok gluggans
Þegar keppnisleyfið fékk voru aðeins sex dagar þar til félagaskiptaglugginn lokaði fimmtudaginn 11. september klukkan 16:00. Hófst þá mikil vinna við að setja saman lið og kvöldið áður en glugginn lokaði voru aðeins komnir 9 leikmenn í leikmannahópinn.
Það náðist þó að setja saman 14 leikmanna hóp en mesta vandamálið var þó að finna markvörð sem annað hvort væri portúgölsk eða með atvinnuleyfi í Portúgal. Eftir mikla leit fannst markvörður sem hafði fallið úr deildinni með öðru liði í vor og hafði enn atvinnuleyfið. Þá voru tveir klukkutímar í að glugginn lokaði en það hafðist þó að semja við hana og fá leikheimildina.
Lenti ósofin eftir 18 tíma ferðalag og beint á lokaæfingu fyrir leik
En vandræðunum var reyndar ekkert alveg lokið þar því markvörðurinn var enn í San Antonio í Texas í Bandaríkjunum og fyrsti leikur mótsins gegn Braga fór fram á sunnudaginn. Hún brunaði í flugvél og fór í langt ferðalag til Portúgals.
Damaiense liðið kom saman á fimmtudagskvöldið í fyrsta sinn og þá tók Kristján fyrst við að þjálfa liðið. Þær náðu að æfa tvívegis á íþróttahóteli í Guimares sem er í nágrenni Braga, fyrst á föstudag og svo á laugardag. Markvörðurinn náði þó bara seinni æfingunni en hún hafði ferðast í 18 tíma og lenti 7:30 á laugardagsmorgun. Hún fór ósofin beint á lokaæfingu fyrir leik klukkan 10:00.
Kirsuberið á kökuna!
Mótherjinn, lið Braga, sem er lið Guðrúnar Arnardóttur og Ásdísar Karenar Halldórsdóttur, hafði klárað tveggja mánaða undirbúningstímabil og leikið tvo leiki í Meistaradeild Evrópu en annar þeirra var 3-1 sigurleikur gegn liði Vals sem Kristján þjálfaði þar til á 1. ágúst síðastliðinn.
Fyrir leikinn á sunnudaginn hafði enginn trú á að lið Kristjáns, Damaiense, gæti fengið neitt úr honum en veðbankar mátu líkurnar einn á móti 50 að þær næðu í sigur.
Eins og góðu Hollywood handriti sæmir endaði Damaiense samt sem áður á að vinna leikinn 1 - 2 og kirsuberið á kökuna var að markvörðurinn bandaríski var valin maður leiksins.
Byrja gegn fjórum bestu og leita að fleiri leikmönnum
Liðið er nú komið í fyrsta sinn til Algarve þar sem heimavöllur þeirra er og framundan eru stífar æfingar. Mótið byrjar eins erfiðlega og hugsast gæti því mótherjarnir í fyrstu fjórum leikunum, Braga, Sporting Lissabon, Benfica og Racing Power, eru liðin sem enduðu í fjórum efstu sætum deildarinnar í fyrra. Félagið lítur á þá fjóra leiki sem undirbúningstímabil og bjóst við að stigasöfnunin hæfist eftir þá leiki. Byrjunin lofar þó betur en það, fyrstu þrjú stigin eru þegar komin í hús.
Framundan er vinna hjá Kristjáni við að finna fleiri leikmenn til að fylla hópinn enn frekar. Þó svo félagaskiptaglugginn sé lokaður má enn fá portúgalska áhugamenn og erlenda leikmenn sem voru samningslausir þegar glugginn lokaði.
Athugasemdir