Ákveðinn í að fá Haaland til Barcelona - City veitir Liverpool keppni um Guehi - Everton mun ekki hlusta á tilboð í Branthwaite
   þri 16. september 2025 14:30
Kári Snorrason
„Alveg sama í hvaða keppni og íþrótt liðin mætast, þetta eru alltaf hörkuleikir“
Lengjudeildin
Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Flautað verður til leiks klukkan 16:45 í Keflavík á morgun.
Flautað verður til leiks klukkan 16:45 í Keflavík á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Heiðar Þorvaldsson þjálfari Njarðvíkur segir mikla tilhlökkun í liðinu að mæta grönnum sínum í Keflavík í umspili Lengjudeildarinnar. Njarðvík endaði í 2. sæti Lengjudeildarinnar eftir að hafa verið í bílstjórasætinu þegar fjórar umferðir voru eftir af mótinu.

„Að sjálfsögðu var það svekkelsi þá. En við komum í okkur þessa stöðu. Við fengum okkar tækifæri til að gera þetta fyrsta sæti að okkar, en því miður náðum við ekki að gera það. Það er ástæða fyrir því að það sé sagt að það sé kalt á toppnum. Mínir menn eru búnir að læra mikið á þessu tímabili og það hefur verið framhald frá því í fyrra. Árangurinn er búinn að vera hrikalega góður. Það verður gaman að sjá okkur mæta Keflavík í tveimur alvöru leikjum og gefa séns á því að fara í stóra leikinn.“

Gunnar er spenntur fyrir að mæta Keflavík í grannaslag.

„Það er alveg sama í hvaða keppni og íþrótt Njarðvík og Keflavík mætast þá eru það alltaf hörkuleikir. Það er virkilega gaman að mæta nágrönnum sínum. Þetta er einn af fáum derby-leikjum í Lengjudeildinni. Maður hefur spilað sjálfur nokkrum sinnum erlendis svona leiki. Það er alltaf aukinn fílingur að spila svona grannaslagi.“

Liðin mættust fyrir tíu dögum síðan og þá fór Keflavík með sigur af hólmi.

„Við getum nýtt okkur það að við töpuðum þeim leik. Okkur fannst við vera sterkara liðið í þeim leik, en þeir skoruðu fleiri mörk en við. Það er fullt af hlutum í þeim leik sem við vitum hvað við þurfum að gera betur til að vinna gott lið Keflavíkur.“

Gunnar segir alla leikmenn liðsins heila og telur að liðið sem er betur stefnt andlega sigri einvígið.

„Við verðum með alla leikmenn okkar til taks í þetta skiptið. Það hjálpar okkur upp á breidd og fleira. Ég held að þetta muni ráðast á breiddinni í hópnum. Það er leikur á morgun og síðan strax aftur á sunnudaginn eftir heilt tímabil. Ég er á því að í svona umspilsleikjum þá er liðið sem er sterkara andlega sem vinna.“

Fyrri leikur liðanna hefst klukkan 16:45 á HS Orku vellinum í Keflavík á morgun. Síðari viðureignin fer svo fram á JBÓ-vellinum í Njarðvík á sunnudag. Sigurvegari einvígisins mætir annaðhvort Þrótti R. eða HK í úrslitaleik á Laugardalsvelli.

Athugasemdir
banner
banner