mið 18. maí 2022 22:27
Brynjar Ingi Erluson
Origi fer í læknisskoðun hjá Milan eftir úrslitaleikinn
Divock Origi fer frá Liverpool í sumar
Divock Origi fer frá Liverpool í sumar
Mynd: Getty Images
Költ-hetjan, Divock Origi, er að ganga í raðir AC Milan frá Liverpool en hann mun gangast undir læknisskoðun hjá félaginu eftir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Þetta kemur fram á ítalska vefnum Calciomercato.

Þessi 27 ára gamli framherji var keyptur til Liverpool frá Lille fyrir átta árum en hann var lánaður stax til baka eitt tímabil áður en hann kom inn í hóp enska liðsins.

Origi hefur skorað nokkur gríðarlega mikilvæg mörk fyrir Liverpool og átti sitt besta tímabil er liðið vann Meistaradeildina fyrir fjórum árum.

Hann skoraði tvö dýrmæt mörk gegn Barcelona í undanúrslitum og gerði svo annað mark liðsins í úrslitunum gegn Tottenham en auk þess skoraði hann nokkur mikilvæg mörk í uppbótartíma fyrir liðið.

Origi varð að einhverskonar költ-hetju hjá Liverpool en samningur hans við félagið rennur út í sumar. Liverpool átti möguleika á að framlengja þann samning um ár til viðbótar en til þess þurfti hann að spila ákveðið marga leiki og er ljóst að það verður ekkert af því.

Ítalska félagið Milan hefur verið í viðræðum við Origi síðustu mánuði og er nú ljóst að hann mun ganga til liðs við félagið þegar samningi hans lýkur við Liverpool.

Calcimercato segir frá því í dag að Origi fari í læknisskoðun hjá Milan eftir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu og mun í kjölfarið skrifa undir langtímasamning.

Origi hefur spilað 175 leiki og skorað 41 á tíma sínum hjá Liverpool og unnið sex titla, þar á meðal Meistaradeildina, ensku úrvalsdeildina og enska bikarinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner