
„Þetta er langt frá því að vera ásættanlegt. Við erum ekki að spila neinn fótbolta að viti þannig við þurfum kannski aðeins að fara hugsa okkar gang og fara byrja á þessu móti." sagði Jóhannes Karl Sigursteinsson þjálfari Stjörnunnar eftir vont tap á Samsungvellinum í Garðabæ en Stjarnan tapaði 6-2 gegn Víking Reykjavík í annari umferð Bestu deildar kvenna.
Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 6 Víkingur R.
„Við erum að gera einstaklingsmistök, dýr mistök í fyrsta og öðru markinu og við gefum í rauninni tvö mörk og þá er bara eins og spilaborgin hrynji, höfum ekki hugarfar eða sjálfstraust til að vinna okkur til baka heldur drögum okkur inn í skelina og einhverneigin spilum engan fótbolta eftir það."
„Ef þú ætlar ekki að verjast föstum leikatriðum þá færðu á þig mörk. Í fyrstu tveimur umferðunum erum við búin að fá á okkur sex mörk úr föstum leikatriðum og það segir sig sjálft að þú vinnur ekki fótboltaeiki ef þú ætlar að spila þannig."
Stjarnan fer norður á Sauðárkrók í næstu umferð og mætir liðið Tindastóll og var Jóhannes Karl spurður hvað liðið þurfi að gera til að sækja sigur þangað ,,við þurfum að byrja á því að verjast, það segir sig sjálf og vera ekki að fá á okkur mörk úr föstum leikatriðum" sagði Jóhannes Karl að lokum.