Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 22. maí 2018 17:35
Björn Már Ólafsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Lið tímabilsins á Ítalíu
Björn Már Ólafsson
Björn Már Ólafsson
Milan Skriniar var öflugur í vörn Inter.
Milan Skriniar var öflugur í vörn Inter.
Mynd: Getty Images
Lorenzo Insigne, leikmaður Napoli.
Lorenzo Insigne, leikmaður Napoli.
Mynd: Getty Images
Paulo Dybala.
Paulo Dybala.
Mynd: Getty Images
Maurizio Sarri er þjálfari ársins.
Maurizio Sarri er þjálfari ársins.
Mynd: Getty Images
Björn Már Ólafsson, einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar um ítalska boltann, fékk það verkefni að velja lið ársins í ítölsku A-deildinni



Mark: Alisson Becker, Roma. Sennilega enginn markmaður verið betri í Evrópu á nýliðnu tímabili. Óumdeildur í rammanum

Miðvörður: Milan Skriniar, Inter. Slóvakinn sem kom frá Sampdoria fyrir tímabilið hefur heillað marga. Hann er stór og sterkur og á einhvern klaufalegan hátt tekst honum líka oftast að koma boltanum ágætlega frá sér. Mætti kalla hann Phil Jones Slóvakíu?

Miðvörður: Kalidou Koulibaly, Napoli. Stór, sterkur og verður bara betri og betri. Besti miðvörður Napoli síðustu ár og það verður spennandi að fylgjast með honum á HM í sumar.

Miðvörður: Mehdi Benatia, Juventus. Eftir brotthvarf Bonucci og með aldurstengdri fjarveru Chiellini og Barzagli þurfi Benatia að stíga upp á þessu tímabili og það tókst honum heldur betur. Sennilega sá varnarmaður sem brýtur mest af sér án þess að dómarinn taki eftir því, en það er mikill kostur þegar þú ert miðvörður. Á stóran hlut í titli Juventus.

Hægri kantur: Joao Cancelo, Inter. Þessi Portúgali hefur verið mikilvægur fyrir sóknarleik Inter á tímabilinu. Sérstaklega þar sem hægri kantmaður liðsins, Antonio Candreva ákvað að fara markalaus í gegnum heilt tímabil. Cancelo er frábær sóknarlega og ef hann bætir varnarleikinn gæti hann orðið óstöðvandi.

Vinstri kantur: Lorenzo Insigne, Napoli. Mikilvægur eins og alltaf fyrir Napoli. Lítið um hann að segja, getur skapað hættu upp úr engu.

Miðjumaður: Jorginho, Napoli. Taktmælirinn sem heldur leik Napoli gangandi. Spilar boltanum nær alltaf frá sér í fyrstu snertingu.

Miðjumaður: Sergej Milinkovic Savic, Lazio. Líkur Pogba í leikstíl. Stór og slánalegur en er góður í öllu því sem fótboltamenn þurfa að vera góðir í. Geggjað touch, stór, sterkur, fljótur, góður skotmaður og frábær skallamaður. Fer að öllum líkindum í stærra félag í sumar eftir að Lazio mistókst að tryggja sér meistaradeildarsæti.

Miðjumaður: Bryan Cristante, Atalanta. Leikmaður sem hefur heillað stóru liðin á Ítalíu síðustu tvö tímabil. Skorar líka mikilvæg mörk fyrir Atalanta.

Sóknarmaður: Paulo Dybala, Juventus. Sóknarmenn Juventus skipust á að skora mörkin í ár. Dybala var svolítið óstöðugri en margir hefðu viljað en staðreyndin er samt sú að hann bjargaði liðinu oft á ögurstundu, bæði í upphafi tímabils og undir lokin.

Sóknarmaður: Ciro Immobile, Lazio. Framherjinn sem kom aftur til Ítalíu með skottið á milli lappanna fyrir tveimur árum eftir misheppnaðar dvalir í Þýskalandi og á Spáni. Skoraði mikið í léttleikandi liði Lazio og naut góðs af því að hafa Luis Alberto fyrir aftan sig.

Þjálfari: Maurizio Sarri, Napoli. Napoli vann engan titil. En þegar litið er til þess hversu ódýr hópurinn hjá Napoli er, þá er algjörlega ótrúlegt að sjá hversu vel þeir spila undir Maurizio Sarri. Þátt hans í velgengni liðsins má ekki vanmeta.

Bekkur:

Mattia Perin, Genoa. Markmaður sem er sterklega orðaður við Juventus eftir tímabilið. Hefur átt góð tímabil eftir að hann náði sér af tveimur krossbandaslitum.

Federico Fazio, Roma. Fazio mætir Íslendingum á HM í sumar eftir gott tímabil. Hefur átt góðu gengi að fagna hjá Roma og þar áður Sevilla en þar áður átti hann slök tímabil hjá Tottenham.

Alex Sandro, Juventus. Juventus með Sandro innanborðs var með frábært sigurhlutfall í vetur. Það er ekki að ástæðulausu. Mjög öruggur og fínn í vörn og sókn.

Allan, Napoli. Fer skellihlæjandi á HM með Brasilíu eftir gott tímabil með Napoli. Algjör bolabítur á miðjunni sem getur samt líka spilað boltanum vel frá sér. Tekur sig vel út á velli með sokkana lengst niður á ökkla, girtur upp á nafla í XXL stuttbuxum.

Lucas Leiva, Lazio. Já þið sjáið rétt, Lucas Leiva hefur verið geggjaður með Lazio og hentar leikstíl þeirra mjög vel.

Lucas Torreira, Sampdoria. Ef ég hefði valið lið ársins í janúar, þá væri hann í liðinu. En gengi Sampdoria hrundi svo eftirminnilega seinnipart tímabils að hann verður að gjöra svo vel að setjast á bekkinn. Grimmur miðjumaður sem er líka með flotta löpp.

Luis Alberto, Lazio. Annar fyrrum Liverpool-maður sem kemst á bekkinn. Fékk að snúa aftur í landsliðið eftir gott tímabil hjá Lazio þótt það hafi ekki dugað til að ná HM sæti. Mjög skapandi leikmaður sem þekkir holuna góðu mjög vel.

Josip Ilicic, Atalanta. Gamli maðurinn er enn með gæði eftir í líkamanum. Frábær skotmaður og geggjaður spilari.

Federico Chiesa, Fiorentina. Ungur og efnilegur ítalskur kantmaður, og slíkir leikmenn vaxa ekki á trjám. Chiesa vex reyndar af ættartrénu frá föður sínum, Enrico Chiesa sem er gömul ítölsk landsliðskempa. Federico er góður í fótbolta en líka duglegur og sinnir varnarskyldunni vel. Hefur verið mikið orðaður við Napoli.

Douglas Costa, Juventus. Mikilvægur sóknarleik Juventus og frábær í að brjóta upp leiki með feiknarhraða og áræðni.

Cengiz Under, Roma. Kom fram á sjónarsviðið þegar hinir framherjar Roma neituðu að skora. Bjargaði mörgum stigum fyrir félagið og gefur Roma von fyrir næsta tímabil.

Mauro Icardi, Inter. Hélt annars nokkuð gráu Inter-liði á floti á tímabilinu. Hann verður sár yfir því að missa af heimsmeistaramótinu í sumar.
Athugasemdir
banner
banner