Arsenal leggur fram tilboð - Schick til Englands - Emi á útleið og fer Inzaghi til Sádi?
   sun 22. október 2023 18:12
Elvar Geir Magnússon
Klopp: Ásgeir Sigurvinsson er einn sá besti í sögunni
„Er þetta Ásgeir Sigurvinsson? Hetjan mín!“ segir Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, í viðtali við Tómas Þór Þórðarson á Síminn Sport en þýska þjálfaranum var sýnt myndbrot af Ásgeiri jafna metin fyrir Stuttgart í 2-2 gegn Bayern München á vormánuðum 1984.

Ásgeir var kjörinn besti leikmaður þýsku 1. deildarinnar að mati leikmanna þetta tímabilið er Stuttgart vann titilinn. Klopp er fæddur í Stuttgart og var mikill aðdáandi liðsins á yngri árum. Hann var einnig mikill aðdáandi Ásgeirs.

„Þegar ég var strákur elskaði ég allt í sambandi við Stuttgart. Það voru margir frábærir leikmenn í liðinu og sérstaklega svona framliggjandi leikmenn eins hann, Hansi Müller og Didier Six,“ segir Klopp.

„Hæfileikar þeirra voru kannski eins langt frá mínum og hugsast gat. Þess vegna elskaði ég þá svo mikið. Ásgeir var frábær leikmaður en ég væri að ljúga ef ég myndi segja að ég myndi eftir einhverju einstöku atviki.“

Klopp forvitnaðist um hvað Ásgeir væri að gera í dag en Tómas hafði því miður fá svör. Hann tjáði Þjóðverjanum þó að allt væri gott að frétta af hetjunni hans.

„Er hann hress? Ég er ánægður að heyra það. Þú mátt skila til hans kveðju og segðu honum að frá mínum bæjardyrum séð er hann einn besti leikmaður sögunnar,“ segir Jürgen Klopp sem sagði svo einnig frá Íslandsför sinni fyrir nokkrum árum og talaði um hversu mikið hann elskar landið.

Viðtalið við Klopp má sjá hér að neðan.

Athugasemdir
banner