Þrír orðaðir við Man City - Chelsea og Liverpool á eftir Kerkez - Fer Vlahovic til Arsenal?
   þri 23. apríl 2024 23:01
Brynjar Ingi Erluson
Leikmenn Chelsea gáfust upp eftir þriðja markið - „Eigum það ekki skilið ef við spilum svona“
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Mauricio Pochettino, stjóri Chelsea á Englandi, var vonsvikinn með frammistöðu leikmanna í 5-0 niðurlægingunni gegn Arsenal á Emirates í kvöld.

Chelsea byrjaði hörmulega. Arsenal komst yfir á 4. mínútu en eftir það tókst gestunum að vinna sig betur inn í leikinn og fékk nokkur færi til að skora.

„Við byrjuðum leikinn ekkert svakalega vel. Við fáum á okkur mark og það er alltaf erfitt að koma til baka eftir það. Mér fannst við berjast eftir svona 10-15. mínútu í fyrri hálfleik. Við náðum aldrei að nálgast leikinn miðað við byrjunina og börðumst ekki á þann hátt sem við þurftum að berjast á. Þegar þeir skora þriðja markið var auðvelt fyrir Arsenal að stjórna leiknum.“

Í hálfleik var staðan 1-0 fyrir Arsenal og sagði Pochettino planið að byrja seinni hálfleik betur en það fyrri. Það heppnaðist ekki og tókst Arsenal að raða inn mörkunum, en Kai Havertz og Ben White skoruðu báðir tvö mörk.

„Við ræddum um það í hálfleik að byrja seinni hálfleikinn með öðruvísi hætti, en við byrjuðum ótrúlega illa. Þegar við fáum síðan þriðja markið á okkur þá gáfumst við upp og eftir það varð þetta bara erfitt fyrir þá.“

„Þú þarft að klára færin. Eins og gegn Manchester City fyrir þremur dögum. Þar kláruðum við ekki færin og það er sama sagan í dag. Mjög erfið frammistaða því það er ekki notalegt að sjá liðið manns spila svona þegar það á að vera fullt af orku. Við vorum vonsviknir, alla vega miðað við að við áttum flottan leik gegn Man City.“


Cole Palmer, besti leikmaður Chelsea á tímabilinu, var ekki með í leiknum vegna meiðsla, en var hann ástæðan fyrir tapinu?

„Við getum ekki sagt að það sé ástæðan fyrir tapinu, en við missum samt leikmann sem er mjög skapandi og hjálpar til við að tengja liðið. Við erum að missa leikmenn sem gerir þjálfunina erfiðari, en í dag þá var bara erfitt að vera inn í leiknum.“

„Við þurfum að vera á þeim stað sem Arsenal er núna. Við erum of mikið að tala á þessu tímabili og allar þær upplýsingar sem við fáum núna er að við viljum vera í annarri stöðu á næsta tímabili.“


Chelsea er í 9. sæti deildarinnar þegar liðið á sex leiki eftir og segir Pochettino að ef liðið spilar svona þá eigi það ekki skilið að spila í Evrópukeppni á næstu leiktíð.

„Það er erfitt að sjá fram í tímann því það eru mikil vonbrigði eftir þennan leik. Það er erfitt að tala um markmið, kannski ef við spilum eins og við gerðum á laugardag, en ef við spilum eins og við gerðum í dag þá eigum við ekki skilið að vera í Evrópu,“ sagði Pochettino.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner