Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 24. janúar 2020 21:32
Ívan Guðjón Baldursson
Þýskaland: Haaland kom inn og skoraði tvö
Mynd: Getty Images
Dortmund 5 - 1 Köln
1-0 Raphael Guerreiro ('1)
2-0 Marco Reus ('29)
3-0 Jadon Sancho ('48)
3-1 Mark Uth ('64)
4-1 Erling Braut Haaland ('78)
5-1 Erling Braut Haaland ('87)

Borussia Dortmund valtaði yfir Köln í fyrsta leik helgarinnar í þýska boltanum. Fyrsta markið kom eftir tæpa mínútu þegar Raphael Guerreiro skoraði eftir góða sendingu frá Jadon Sancho.

Marco Reus tvöfaldaði forystuna eftir langa sendingu úr vörninni frá Mats Hummels og leiddu heimamenn í hálfleik, 2-0.

Sancho gerði þriðja markið í upphafi síðari hálfleiks en Mark Uth minnkaði muninn á 64. mínútu. Þá var komið að ungum Norðmanni sem heitir Erling Braut Haaland og er að gera allt vitlaust í Dortmund.

Haaland kom inn strax eftir mark Uth og það tók hann ekki nema tólf mínútur að skora. Tíu mínútum síðar skoraði hann aftur og lokatölur því 5-1.

Haaland er núna búinn að skora fimm mörk í tveimur fyrstu leikjum sínum í þýsku deildinni. Í heildina er hann búinn að spila rétt rúman klukkutíma af fótbolta, hann er því að skora mark á þrettán mínútna fresti.

Dortmund er í þriðja sæti deildarinnar eftir sigurinn, fjórum stigum frá toppliði Leipzig sem á leik til góða.

Köln hafði unnið fjóra deildarleiki í röð og er þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Athugasemdir
banner
banner