Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   þri 25. janúar 2022 21:17
Brynjar Ingi Erluson
Afríkukeppnin: Aftur kom Hakimi til bjargar
Achraf Hakimi skoraði sturlað sigurmark fyrir Marokkó
Achraf Hakimi skoraði sturlað sigurmark fyrir Marokkó
Mynd: Getty Images
Marokkó 2 - 1 Malaví
0-1 Gabadinho Mhango ('7 )
1-1 Youssef En-Nesyri ('45 )
2-1 Achraf Hakimi ('70 )

Marokkó varð í kvöld sjötta liðið til að komast áfram í 8-liða úrslit Afríkukeppninnar eftir 2-1 sigur á Malaví. Stjörnuleikmaðurinn Achraf Hakimi var enn og aftur bjargvættur liðsins.

Marokkó var nálægt því að tapa efsta sæti riðilsins er liðið var að tapa fyrir Gabon í síðustu umferð. Hakimi jafnaði metin með marki úr aukaspyrnu þegar sex mínútur voru eftir og tryggði þannig toppsæti riðilsins en hann var í svipuðu hlutverki í kvöld.

Gabadinho Mhango skoraði stórbrotið mark fyrir Malaví á 7. mínútu leiksins. Markið kom upp úr engu en hann var með boltann tæpum 40 metrum frá markinu og lét vaða. Stórglæsilegt skot sem Yassine Bounou átti ekki roð í.

Youssef En-Nesyri jafnaði metin með skalla eftir fyrirgjöf frá Selim Amallah í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Marokkó stýrði leiknum frá A til Ö og kom sigurmarkið þegar tuttugu mínútur voru eftir. Liðið fékk aukaspyrnu af 30 metrunum og enn og aftur þrumaði Hakmi boltanum í samskeytin.

Hann gerði slíkt hið sama í síðasta leik. Magnað mark og reyndist þetta síðasta mark leiksins. Marokkó í 8-liða úrslit keppninnar og þar mætir liðið Fílabeinsströndinni eða Egyptalandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner