Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 26. október 2021 19:18
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gulli Victor og félagar töpuðu óvænt - Böðvar sneri aftur
Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miðjumaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson spilaði allan leikinn þegar Schalke féll óvænt úr leik í þýsku bikarkeppninni í kvöld.

Schalke, sem er í B-deildinni, heimsótti 1860 München, sem er í fallbaráttu í C-deildinni. Schalke lenti undir strax eftir fimm mínútna leik.

Útlitið varð dekkra fyrir Schalke í byrjun seinni hálfleiks þegar Malick Thiaw, varnarmaður liðsins, fékk að líta beint rautt. Einum færri tókst Schalke ekki að jafna.

Guðlaugur Victor og félagar eru því úr leik og geta einbeitt sér alfarið að því að komast aftur upp í þýsku úrvalsdeildina. Liðið situr í þriðja sæti B-deildarinnar í augnablikinu.

Sóknarmaðurinn Hólmbert Aron Friðjónsson var ónotaður varamaður hjá Holstein Kiel í 5-1 tapi gegn úrvalsdeildarliðinu Hoffenheim í sömu keppni. Holstein Kiel er í B-deildinni. Hólmbert hefur ekki spilað mikið á þessu tímabili.

Böðvar sneri aftur eftir leikbann
Vinstri bakvörðurinn Böðvar Böðvarsson sneri aftur í lið Helsingborg eftir leikbann. Helsingborg þurfti að sætta sig við tap gegn GAIS á heimavelli í sænsku B-deildinni.

Helsingborg jafnaði metin í uppbótartímanum en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Myndband af markinu má sjá hér fyrir neðan. Mjög tæpt.

Helsingborg er í þriðja sæti B-deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir. Annað sætið fjarlægist. Liðið sem endar í þriðja sæti fer í umspil um sæti í úrvalsdeildinni.
Athugasemdir
banner
banner