Martyn Heather er yfirmaður fræðslumála hjá ensku úrvalsdeildinni en hann var staddur hér á landi í ágúst. Hann mætti þá í útvarpsþátt Fótbolta.net á X-inu í viðtal við Tómas Þór Þórðarson.
Helsta umræðuefni viðtalsins var hið svokallaða „Elite Player Performance Plan" sem er áætlun sem á að fjölga góðum enskum fótboltamönnum í úrvalsdeildinni en aðeins um 35% leikmanna í deildinni eru Englendingar.
„Þetta er áætlun sem við hófum að vinna í fyrir fimm árum þegar ljóst var að það þurfti að endurskoða stefnuna á Englandi varðandi að búa til leikmenn. Enska úrvalsdeildin hefur breyst gríðarlega og stækkað og við þurftum að búa til kerfi sem mun stuðla að því að verið væri að framleiða fleiri enska leikmenn sem gætu spilað með aðalliðum í úrvalsdeildinni," sagði Heather.
Í þessari áætlun er félögum skipt upp í sérstaka flokka og þau eru hærra á listanum ef þau uppfylla ákveðin skilyrði varðandi fjölda unglingaþjálfara og aðstæður.
„Við viljum hafa sem flesta af bestu leikmönnum heims í deildinni en metnaður okkar liggur líka í því að hafa öfluga heimamenn. Við teljum að með því að blanda þessu rétt saman séum við með bestu deildarkeppni í heimi. Ef við viljum að deildin lifi áfram er ekki hægt að halda því út að kaupa bara leikmenn, við verðum að þróa okkar eigin menn líka."
Þessi áætlun er mjög umdeild. Sérstaklega hjá minni félögum en samkvæmt þessu kerfi er þeim stærri gefinn aukinn möguleiki á að skoða efnilega leikmenn hjá þeim minni og krækja í þá.
„Það sem gerir flækjustigið meira er hvernig kerfið er hér á landi. Við erum með úrvalsdeildina sem er sér batterí og svo er „Football League" sem stýrir deildunum fyrir neðan. Það hefur því verið erfitt að ná samkomulagi og við gerðum ráð fyrir að FA, enska knattspyrnusambandið, myndi ýta á þetta," sagði Heather.
Viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan en þar útskýrir Heather nánar hvernig áætlanir úrvalsdeildarinnar eru og svarar þeirri gagnrýni sem kerfið hefur fengið.
Athugasemdir