Simons orðaður við Man Utd - Calafiori færist nær Arsenal - West Ham hefur áhuga á Tomori
   fös 01. apríl 2011 09:00
Hafliði Breiðfjörð
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þegar Fótbolti.net valdi Gylfa Þór í U21 árs landsliðið
Hafliði Breiðfjörð
Hafliði Breiðfjörð
Gylfi Þór Sigurðsson var ekki í myndinni hjá þjálfara U21 árs landsliðsins fyrr en Fótbolti.net skarst í leikinn.
Gylfi Þór Sigurðsson var ekki í myndinni hjá þjálfara U21 árs landsliðsins fyrr en Fótbolti.net skarst í leikinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi Þór fagnar marki með Jósef Kristni Jósefssyni.
Gylfi Þór fagnar marki með Jósef Kristni Jósefssyni.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Gylfi Þór skoraði þrjú mörk í þeim þremur leikjum sem hann fékk að spila í undankeppninni og þótti frábær í leiknum mikilvæga gegn Þjóðverjum.
Gylfi Þór skoraði þrjú mörk í þeim þremur leikjum sem hann fékk að spila í undankeppninni og þótti frábær í leiknum mikilvæga gegn Þjóðverjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vinsælasta landslið Íslands í dag er U21 árs landsliðið sem vann sér þátttökurétt í úrslitakeppni Evrópumótsins í Danmörku næsta sumar. Þegar liðið er í umræðunni hef ég oft rifjað upp undarlega uppákomu í byrjun undankeppninnar þar sem Fótbolti.net valdi Gylfa Þór Sigurðsson í liðið.

Ísland hóf keppni í undankeppni Evrópumótsins í ágúst árið 2009 og byrjaði mótið á að tapa fyrir Tékkum á KR-velli 12. ágúst.

Gylfi Þór Sigurðsson sem er að flestra mati besti leikmaður liðsins var þetta haust búinn að festa sig í sessi sem byrjunarliðsmaður í liði Reading í næst efstu deild Englands og skoraði og lagði upp mörk fyrir liðið.

Þrátt fyrir það var hann ekki í myndinni hjá Eyjólfi Sverrissyni þjálfara U21 árs landsliðsins, hvorki í Tékkaleiknum né leik gegn Norður Írlandi ytra 8. september sem vannst 2-6.

Í október var Gylfi farinn að stela fyrirsögnum ensku blaðanna í hverri viku og var valinn leikmaður mánaðarins með liðinu þegar komið var að vali á næsta landsliðshópi.

Nú átti að mæta San Marínó og Norður Írlandi og enn var Gylfi Þór sniðgenginn af Eyjólfi landsliðsþjálfara í valinu á hópnum.

Það er mjög erfitt að ná í Eyjólf en nú vildi ég svör svo ég reyndi mikið að ná á hann í síma. Þegar það gekk ekki spurði ég framkvæmdastjóra KSÍ sem skoraði á mig að prófa að hringja með númeraleynd. Það voru hins vegar ekki vinnubrögð sem eru mér að skapi svo ég reyndi áfram og á endanum tókst að ná í þjálfarann fimmtudaginn 8. október og ég gat spurt hann út í málið.

Upp úr krafsinu kom að Gylfi hafði óskað eftir því að fá að sleppa við æfingaleik gegn Dönum 2. júní þetta ár og þjálfarinn skildi það sem svo að hann væri hættur að gefa kost á sér í liðið.

,,Þegar ég talaði við hann í vor gaf hann ekki kost á sér og ætlaði að einbeita sér að Reading, við berum bara virðingu fyrir því og viljum ekki pína neinn í landsleiki," sagði Eyjólfur meðal annars í viðtalinu sem ég birti morguninn eftir, aðspurður um fjarveru Gylfa.

Næsta skref hjá mér var eðlilega að taka þessi orð trúanleg og hafa strax samband við Gylfa, spyrja hvers vegna í ósköpunum hann gæfi ekki kost á sér til að spila fyrir Íslands hönd. Þá kom í ljós að menn voru greinilega ekki að skilja hvorn annan því Gylfi sagði:

,,Það er greinilegt að það er einhver misskilningur í gangi. Ég bað Eyjólf um frí í einum æfingaleik síðasta vor og hann hefur ekki valið mig síðan. Ég gerði honum grein fyrir því að mig langaði að spila fyrir landsliðið áfram en þyrfti einungis frí í þessum eina æfingaleik. Ég bíð bara eftir kallinu."

Með þessi skilaboð frá Gylfa var ljóst að eitthvað mikið var að í samskiptum milli manna. Nú var ég búinn að birta tvær fréttir um málið þennan sama föstudag, hliðar Eyjólfs og Gylfa og ljóst að þar sem ég vildi fá þennan frábæra mann í landsliðið var okkar verkefni ekki lokið.

Íslenska liðið átti leik þarna um kvöldið við San Marínó á Laugardalsvelli, leik sem vannst 8-0. Eftir leikinn gekk Magnús Már Einarsson ritstjóri Fótbolta.net á Eyjólf og benti honum á að Gylfi gæfi víst kost á sér, hvort ekki væri málið að velja hann?

,,Mér skilst að hann hafi verið á vellinum og ég ætla að hitta hann á eftir. Það er frábært og við erum ánægðir með það. Það hefði verið gaman að heyra þetta fyrr og ef ég hefði heyrt þetta persónulega þá hefði það verið ennþá betra en ég mun spjalla við hann," sagði Eyjólfur við Magnús.

Sunnudaginn 11. október var Gylfi svo kallaður inn í hópinn fyrir leikinn gegn Norður Írum á þriðjudeginum þar á eftir og hefur átt fast sæti í liðinu síðan þá og staðið sig frábærlega. Hann skoraði þrjú mörk í þremur leikjum í riðlinum, þar á meðal eitt í leiknum hér heima gegn Þjóðverjum þar sem hann átti stórleik. Við tóku svo tveir umspilsleikir við Skota um sæti á Evrópumótinu. Gylfi spilaði báða, og skoraði bæði mörkin í 1-2 sigri í Skotlandi, mörk sem voru stórkostleg og eru enn í minningum flestra. Ísland var komið á EM.

Mín meining með þessum pistli er aðallega að benda á að menn verða að hafa það í sér að tala saman. Þarna þurfti fjölmiðil til að leysa smámál sem var bara til komið því menn töluðu ekki saman.

Þegar um landslið er að ræða græðir enginn á að vera þrjóskur eða fara í fílu út af engu. Menn verða að hafa það í sér að tala saman og leysa svona mál svo bestu mennirnir séu með, og það á ekki að þurfa fjölmiðla til að höggva á þessa hnúta. U21 árs landsliðið er komið á stórmót í fyrsta sinn og við höfum ekki efni á fleiri svona uppákomum fyrir mótið.

Sjá einnig:
Fös 9. okt 2009 07:30: Eyjólfur um Gylfa Þór: Getum ekki pínt menn til að spila í landsliðinu
Fös 9. okt 2009 13:34: Gylfi: Gerði Eyjólfi grein fyrir að mig langaði að spila fyrir landsliðið
Fös 9. okt 2009 21:17: Eyjólfur Sverrisson: Ætla að hitta Gylfa Þór á eftir
Sun 11. okt 2009 17:04: Gylfi Þór kallaður inn í U21 árs landsliðshópinn
banner
banner
banner