Hvað gerir Guardiola? - Laporta vill Haaland - Man Utd fylgist með Eze - Pogba hafnar rússnesku félagi
   þri 01. október 2024 07:54
Elvar Geir Magnússon
Var í beinni útsendingu þegar hann var rekinn
Mynd: Lyngby
David Nielsen þjálfari Lilleström í Noregi var í beinni útsendingu í danska sjónvarpinu þegar hann fékk að vita að hann hefði verið rekinn.

Hann entist aðeins rúman mánuð í starfi og var rekinn eftir fjóra leiki. Liðið tapaði þremur og gerði eitt jafntefli og er í neðsta sæti norsku úrvalsdeildarinnar.

„Ég var bara að sjá þetta hérna í símanum mínum," sagði Nielsen í beinni útsendingu en hann var sérstakur sérfræðingur í kringum leik Nordsjælland og Bröndby á TV 2.

Camilla Martin, sem stýrði umfjölluninni, hafði fengið upplýsingar um það í beinni útsendingu að Nielsen hefði verið látinn fara og spurði hann út í það.

„Ég fékk hringingu fyrr í dag, við erum í flókinni stöðu. Við fórum út af brautinni og töpuðum 4-0 og 5-0. Svona er þetta, þetta urðu bara fjórir leikir," sagði Nielsen.

Hann er vanur því að staldra stutt við hjá félögum en hann var rekinn frá gríska félaginu Kifisia í desember 2023 eftir aðeins sex vikur í starfi. Fyrr á þessu ári tók hann tímabundið við Lyngby í nokkra mánuði.


Athugasemdir
banner