Fram þurfti að gera sér eitt stig að góðu á heimavelli í Úlfarsárdal er liðið mætti Stjörnunni í kvöld en lokatölur urðu 1-1. Fram hafði talsverða yfirburði í leiknum framan af en tókst ekki að skora nema eitt mark sem gestirnir úr Garðabæ að endingu refsuðu þeim fyrir. Rúnar Kristinsson þjálfari Fram var til viðtals við Fótbolta.net að leik loknum og var spurður hvort hann væri mögulega sá svekktari af þjálfurum liðanna.
Lestu um leikinn: Fram 1 - 1 Stjarnan
„Ég get alveg ímyndað mér það að það sé svoleiðis. En engu að síður og þrátt fyrir okkar yfirburði í fyrri hálfleik þá náðum við ekki að skora og það veit aldrei á gott.“
„Mér fannst Stjarnan koma mjög öflugir út í síðari hálfleik. Dældu mikið af löngum boltum fram á Andra Rúnar og Alex var að hlaupa í gegn og þeir ógnuðu okkur þannig. Mér fannst við ekki hafa nógu góð tök á síðari hálfleik og þeir sköpuðu fullt.“
Eins og fyrr segir var lið Fram með talsverða yfirburði í fyrri hálfleik en var ekki að takast að skapa sér afgerandi dauðafæri. Hvað var það sem upp á vantaði? Þessi svokallaða úrslitasending?
„Bæði það og það að þegar menn komast í dauðafæri þá vantar drápseðlið og bara vera með gæðin í það að slútta færunum almennilega.“
Langt er um liðið síðan að Fram tapaði síðast deildarleik en það gerðist síðast 2.júní síðastliðinn. Vissulega gott að tapa ekki en Rúnar hefði viljað fá fleiri stig.
„Algjörlega frábært en ég tel okkur eiga að vera með fleiri stig. Það er gott að tapa ekki leikjum og vera með jafnvægi en mér finnst við því miður búnir að brenna af allt of mörgum góðum færum í sumar. Ef við hefðum haft betri nýtingu í okkar færum og því sem við sköpum þá gætum við verið með örlítið fleiri stig en við þurfum bara að æfa það betur.“
Félagaskiptaglugginn lokar senn og var Rúnar spurður hvort möguleiki væri á einhverjum fréttum úr Úlfarsárdal.
„Ekkert nema eitthvað komi óvænt upp. Við erum ekki búnir að fá neitt inn á borð til okkar sem hefur gengið upp, Vissulega búnir að reyna eitthvað en ég sé ekki fram á að við séum að bæta við okkur leikmanni.“
Sagði Rúnar en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan.
Athugasemdir