Bruno Fernandes var gagnrýninn á frammistöðu Manchester United í jafnteflisleik gegn Everton um helgina. Liðin mættust í lokaleik í æfingamóti í Bandaríkjunum þar sem Rauðu djöflarnir enduðu í efsta sæti með 7 stig úr 3 leikjum.
Fyrirliðinn er ósáttur þar sem hann telur einhverja leikmenn liðsins hafa verið lata í leiknum. Hann segist vilja sjá einn eða tvo leikmenn í viðbót koma til félagsins í sumar til að bæta gæðastigið í hópnum.
„Við þurfum meiri samkeppni um byrjunarliðssæti. Við þurfum meiri gæði í hópinn til að fá menn til að stíga upp og leggja meira á sig. Vonandi fáum við einn eða tvo leikmenn í viðbót til að hjálpa við það," sagði Fernandes eftir jafnteflið.
„Við vildum ekki klára æfingamótið með þessum hætti, við vorum ekki uppá okkar besta og við vorum svolítið latir. Það er mikilvægt að útræta letina.
„Æfingaferðin hefur verið jákvæð. Það er gott fyrir hópinn að ferðast svona saman, þetta hjálpar leikmönnum að tengja við hvora aðra líka utan vallar. Ferðin hefur líka verið mikilvæg fyrir okkur til að þróa leikstílinn og koma nýju leikmönnunum inn í kerfið."
Fernandes átti góðan leik gegn Everton og lofaði samspil hans við nýju leikmennina Matheus Cunha og Bryan Mbeumo góðu.
„Gæðin eru að skána en þau eru ekki ennþá orðin eins góð og þau þurfa að vera ef við ætlum að vera samkeppnishæfir. Manchester United er sögufrægt félag sem á að vera að berjast um titla. Það er partur af menningunni sem við þurfum að enduruppgötva. Við verðum að finna sigurhugarfarið aftur. Til þess að gera það þurfum við hjálp frá félaginu til að gera hluti eins og að bæta æfingasvæðið, leikmannahópinn, starfsteymið og aðra hluti.
„Mikið af fólki hefur þjáðst útaf slæmum árangri okkar á undanförnum árum. Við verðum að breyta því."
Athugasemdir