Haukur Andri Haraldsson ræddi við Fótbolta.net eftir ótrúlegt jafntefli ÍA gegn Val í Bestu deildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: ÍA 2 - 2 Valur
„Ég er sáttur með að við náðum að koma til baka úr stöðunni sem var komin. Við mættum ekki til leiks og fáum tvö mörk á okkur en svo náum við að koma til baka í seinni með gríðarlegri orku. Við vorum mun betri aðilinn lungan af seinni. Mjög góður seinni hálfleikur af minni hálfu og flest allra í liðinu," sagði Haukur.
„Hörmulegur fyrri hálfleikur, að fá okkur tvö léleg mörk sem kostar okkur að ná sigri úr þessum leik. Við ætlum að sjá til þess að við gerum betur næst og mætum til leiks gegn FH."
Haukur Andri hefur þurft að sætta sig við mikla bekkjarsetu í sumar.
„Það er erfitt að sitja á bekknum, ég get viðurkennt það. Það er þjálfarinn sem ræður, hann velur byrjunarliðið. Ég vonast eftir því að það breytist í næsta leik. Ég verð að halda haus og halda áfram að bæta mig á hverri æfingu þannig maður fær spiltíma."
Tryggvi Hrafn Haraldsson, bróðir Hauks, var í byrjunarliði Vals. Haukur hafði mjög gaman af því að mæta bróður sínum.
„Hann skorar venjulega á móti ÍA. Fínt að hann skorar ekki í dag. Það er gaman að spila á móti honum. Ég hefði viljað byrja í dag og verið hægra megin og tekið aðeins á honum. Það var fínt að koma inn á og kljást við hann."
„Ég er sáttur að hann skoraði ekki. Það er kominn tími til að ég vinni hann einhvern tímann."
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum fyrir ofan.
Athugasemdir