Undir blálok leiks Breiðabliks og KA skoraði Breiðablik mark sem ekki fékk að standa. Tobias Thomsen átti skot eftir hornspyrnu sem fór af Viktori Erni Margeirssyni og þaðan í netið.
Staðan orðin 2-1 og Blikar að taka öll stigin úr leiknum. En þá tók Jóhann Ingi Jónsson, dómari leiksins, og hans teymi þá ákvörðun að dæma markið af, atvikið metið sem svo að boltinn hafi farið af hendi Viktors og þaðan í netið. Fótbolti.net ræddi við Þórodd Hjaltalín sem vinnur við dómaramál hjá KSÍ.
Staðan orðin 2-1 og Blikar að taka öll stigin úr leiknum. En þá tók Jóhann Ingi Jónsson, dómari leiksins, og hans teymi þá ákvörðun að dæma markið af, atvikið metið sem svo að boltinn hafi farið af hendi Viktors og þaðan í netið. Fótbolti.net ræddi við Þórodd Hjaltalín sem vinnur við dómaramál hjá KSÍ.
03.08.2025 22:51
Annað sjónarhorn á markið sem dæmt var af Blikum - „Hlustar á þá í meðvirkni sinni"
„Ég er búinn að sjá þau sjónarhorn sem eru til af þessu, mér finnst ekkert „clear and obvious" í þessu. Persónulega hallast ég að því að boltinn fari af mjöðminni á Blikanum og í markið. En á sama tíma get ég ekki sagt að hann fari ekki af mjöðminni á honum, í hendina og inn."
„Allir sem ég hef talað við eru annað hvort KA megin eða Blika megin. KA mönnum finnst skrítið að þessi klippa sé birt, það sé augljóst að hann fari í mjöðmina, svo í hendina og þaðan í markið. Svo talar maður við aðra og þeir spyrja sig hvernig hægt sé að dæma hendi, boltinn fari bara í mjöðmina og inn."
„Mitt heiðarlega svar, ef ég hefði verið í hlutverki eftirlitsmanns í þessum leik, þá myndi ég ábyggilega styðja ákvörðun dómarans. Ég er ekki með neitt annað klippt og skorið, mér finnst þessi klippa ekki nógu góð til þess að ég sagt að þetta séu mistök." segir Þóroddur.
Hann hefur spurt dómarana út í samskiptin sín á milli í kringum ákvörðunina.
„Þeir segja að samskiptin hafi verið fín, þeir hafi sameiginlega komist að þessari niðurstöðu."
„Göngum út frá því að það sem gerist á vellinum sé á vellinum"
En svo eru það ummæli Halldórs Árnasonar, þjálfara Breiðabliks, eftir leikinn.
„Ég reyndi að tala við hann (Jóhann Inga) en fékk þá gult spjald og hann sagði mér að vera þakklátur fyrir að fá bara gult ef ég drullaði mér í burtu strax. Það voru samskiptin eftir leik," sagði Dóri við Fótbolta.net.
Þóroddur var spurður út í þessi ummæli, hann gat ekki tjáð sig um hvað var sagt, en hann vill að menn sýni virðingu í samskiptum sínum við dómara, og að dómarar sýni þjálfurum og leikmönnum virðingu.
„Það er erfitt fyrir mig að tjá mig eitthvað um það, þetta er bara orð á móti orði. Það sem ég get sagt er að dómararnir geta ekki varið sig, þeir geta ekki komið fram og sagt að þetta sé ekki rétt. Þá erum við líka komnir í eitthvað borðtennis sem fer á milli þjálfarans og okkar, án þess að fá lendingu, þetta eru bara samskipti þeirra á milli, engin upptaka. Það er því ekki hægt að kryfja það neitt."
„Mig langar samt að segja að við göngum svolítið út frá því að það sem gerist á vellinum sé á vellinum. Það er ýmislegt sem gengur yfir okkur og við erum ekki að koma fram með eftir leiki af virðingu við þjálfara og leikmenn. Ég er ekki að birta greinar eftir leiki þar sem ég er að segja að einhver hafi sagt þetta eða hitt við dómarann. Ég sé bara engan tilgang með því, en það er ýmislegt sem gengur yfir dómara í samskiptum sem við erum ekki að fara með lengra."
„En að því sögðu vil ég að dómararnir sýni þjálfurum og leikmönnum virðingu, að mannleg samskipti séu á hærra plani en þetta, en ég er ekki að segja að Jói hafi sagt þetta við hann."
„Breiðablik birtir þetta myndband (Hilmar Jökull, stuðningsmaður Breiðabliks, birti annað sjónarhorn af atvikinu umdeilda), það er eins og það er. Við munum ekki svara frekar um þetta atvik, viljum einbeita okkur að því sem skiptir máli, að spila og dæma fótbolta."
Vilja ekki bara sýna frá þegar vel er gert
En vilja dómarar hafa eitthvað fyrirkomulag þar sem þeir geta tjáð sig eftir hverja umferð?
„Já, við værum alveg til í það, og erum að reyna vinna í þá átt. En til þess að við getum gert það, þá þurfum við að komast aðeins lengra í okkar vinnu. Eins og með samskiptin, ég sé fyrir mér að við munum gera meira af því að birta samskipti í atvikum þegar við erum komnir á þann stað að allir dómararnir okkar í deildinni eru með samskiptabúnað með upptöku. Við erum ekki komnir þangað, þetta er fokdýr búnaður og bara valdir dómarar með þetta."
„Það er rosalega erfitt fyrir okkur að birta bara stundum. Núna hefði verið best að vera með upptökuna af þessu og heyra hvað Jói segir við Dóra. Ef hann segir „drullaðu þér í burtu" þá gætum við sett það út í loftið og beðist afsökunar á því, viljum ekki að þetta sé gert svona, en á sama tíma reynt að útskýra af hverju þetta gerist. Það alltaf þannig með öll mistök sem við gerum, rýnum í því, skoðum samskiptin. Ef þau eru til á upptöku þá er farið yfir hvar og hvenær hefði verið hægt að gera betur. Á þessum tímapunkti var mikið búið að gerast, markmannsþjálfarinn kominn með rautt og mikil spenna. Núna eigum við ekki upptökurnar og getum þá ekki komið og sagt „því miður eigum við ekki upptökurnar". Þá sér fólk bara þegar vel er gert, en ekki þegar allt fer í skrúfuna, og við viljum ekki hafa það þannig."
„Þegar við sjáum svart á hvítu að við erum að gera mistök, þá er ekkert vandamál að koma út og segja að röng ákvörðun hafi verið tekin." Við getum ekki bara tjáð okkur og birt þegar við gerum vel."
„Ég finn ekki annað en að fólk hafi áhuga á þessu, hefur áhuga á því hvernig ákvarðanir eru teknar og við viljum sýna meira frá því þegar það verður hægt," segir Þóroddur.
Athugasemdir