Newcastle reynir við Guehi og Sesko - Sesko tilbúinn að fara til Newcastle - Liverpool skoðar Íra
   þri 05. ágúst 2025 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Levy ánægður með að skilja góða arfleifð eftir sig
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Daniel Levy forseti Tottenham tjáði sig um nýjan þjálfara í viðtali við Gary Neville. Thomas Frank var ráðinn fyrr í sumar eftir brottrekstur Ange Postecoglou þrátt fyrir sigur í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Levy segir að markmiðið sé ekki að vinna ensku úrvalsdeildina strax á þessu tímabili, en að Thomas Frank þurfi að skila árangri sem fyrst til að vera langlífur í nýju starfi.

„Það er margt sem þarf að ganga upp til að ráðningin á Thomas skili þeim árangri sem við erum að vonast eftir. Thomas er mjög gáfaður einstaklingur sem er einstaklega góður í mannlegum samskiptum. Hann verður frábær fyrir leikmennina og mun bæta þeirra leik," sagði Levy.

„Róm var ekki byggð á einum degi og við erum ekki að segja við viljum vinna úrvalsdeildina í ár, en við viljum vinna hana sem fyrst. Þetta snýst aðallega um að vera samkeppnishæfir á hæsta stigi."

Það kom mörgum á óvart þegar Levy ákvað að reka Postecoglou eftir síðustu leiktíð. Tottenham tókst að vinna Evrópudeildina á tímabili sem einkenndist af gríðarlegum meiðslavandræðum, en frammistaða liðsins í ensku úrvalsdeildinni var til skammar. Það er ástæðan fyrir því að gríski Ástralinn var rekinn.

Markmið Tottenham er að reyna að vinna bæði ensku úrvalsdeildina og Meistaradeild Evrópu.

„Það er ekki nóg að vinna Evrópudeildina. Við höfum tekið þátt í 16 eða 17 undanúrslitaleikjum og sex eða sjö úrslitaleikjum en ekki unnið nóg. Við þurfum að byggja ofan á það. Það er með ólíkindum að við erum aðeins búnir að vinna tvo titla á rúmlega 20 árum. Ég get ekki svarað því af hverju við höfum ekki náð meiri árangri en þetta, ég er ekki maðurinn sem velur liðið eða leikmennina. Ég hef engin áhrif á fótboltatengdar ákvarðanir.

„Lokaákvörðunin um hver stýrir liðinu liggur hjá mér en þetta eru allt sameiginlegar ákvarðanir sem ég tek í samráði við stjórnendur og tæknilega ráðgjafa. Ange vann mikilvægan titil en við enduðum í 17. sæti úrvalsdeildarinnar með 22 tapleiki á deildartímabilinu sem er óviðunandi. Við megum ekki missa sjónar á því. Það er ekki í boði fyrir Tottenham að vera í þeirri stöðu. Við viljum vinna í öllum keppnum, ekki bara einni keppni."


Hluti stuðningsmanna Tottenham kennir Levy um slæmt gengi félagsins og hefur gert í mörg ár. Levy er ekki að kippa sér alltof mikið upp við það.

„Ég finn til með stuðningsmönnum þegar okkur gengur illa. Trúið mér ég þjáist í hvert skipti sem við töpum fótboltaleik, það eyðileggur heilu helgarnar fyrir mér. Ég er ánægður með að skilja góða arfleifð eftir mig hérna, til dæmis magnaðan leikvang sem er öfundaður af samkeppnisaðilum okkar."

Levy er 63 ára gamall og hefur verið forseti Tottenham í rúmlega 20 ár.
Athugasemdir
banner
banner
banner