þri 05.ágú 2025 12:00 Mynd: Nottingham Forest |
|

Spáin fyrir enska: 10. sæti
Það styttist heldur betur í það að þjóðaríþrótt Íslendinga, enska úrvalsdeildin, fari aftur af stað. Líkt og síðustu ár, þá munum við kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.
Við höldum áfram eftir verslunarmannahelgi og núna er komið að Nottingham Forest sem er spáð tíunda sætinu.
Matz Sels var einn besti markvörður ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.
Mynd/Nottingham Forest
A statement of intent from our owner Evangelos Marinakis, as Morgan Gibbs-White signs a record deal at the Club until the summer of 2028. ???? pic.twitter.com/WhvuhecdhI
— Nottingham Forest (@NFFC) July 26, 2025
Marinakis er skrautlegur karakter en í heimalandi sínu, Grikklandi, hefur hann verið ásakaður um alls konar hluti eins og eiturlyfjasmygl, að múta dómurum og að vera höfuðpaurinn í glæpagengi. Hann neitar þessu öllu saman. Í enska boltanum hefur Marinakis oft gengið mjög langt í að verja hagsmuni félags síns en það er ljóst að honum þykir mjög vænt um félagið sitt, Nottingham Forest. Á síðustu árum hefur Forest farið úr því að vera miðlungs Championship félag í að vera félag sem berst um að komast í Evrópukeppni í ensku úrvalsdeildinni. Síðasta tímabil var magnað fyrir Forest og lengi vel leit út fyrir að liðið myndi komast í Meistaradeildina. En erfiðleikar undir lok tímabils gerðu það að verkum að liðið komst í Sambandsdeildina, sem var samt sem áður mjög flott afrek.
Marinakis lét þó til sín taka í sumar á fleiri vettvöngum því hann kvartaði til UEFA að Crystal Palace væri í Evrópudeildinni í ljósi þess að einn af eigendum Palace væri einnig eigandi hjá Lyon í Frakklandi og bæði þessi lið væru í Evrópudeildinni. Forest fékk sínu framgengt og tekur því þátt í Evrópudeildinni sem er mun skemmtilegra. Það verður spurning hvernig Forest gengur að fylgja eftir frábæru síðasta tímabili og hvort leikmenn eins og Chris Wood haldi áfram að spila frábærlega. Undir stjórn Nuno hefur náðst flottur taktur og Forest er félag sem stefnir klárlega áfram að vera í efri hluta deildarinnar þrátt fyrir að leikjaálagið verði meira í vetur en áður hefur verið út af Evrópukeppninni.
Stjórinn: Portúgalinn Nuno Espírito Santo hefur reynst lykilmaður í endurreisn Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni. Hann þurfti Forest og Forest þurfti hann. Hann var frábær með Wolves en náði ekki miklum árangri með Tottenham í kjölfarið. Eftir að hafa tekið við liði í vandræðum seint árið 2023 náði hann ótrúlegum árangri með því að leiða upp í sjöunda sæti tímabilið eftir – sem tryggði félaginu þátttöku í Evrópukeppni í fyrsta sinn í nær þrjá áratugi. Með rólegri framkomu, skipulagðri nálgun og sveigjanlegri leikfræði hefur Nuno breytt Forest í mjög agað og vel útfært lið. Hann hefur notast bæði við fimm og fjóra í vörn eftir andstæðingum, og leikmenn eins og Murillo og Nikola Milenkovic hafa blómstrað í varnarlínunni, á meðan Morgan Gibbs-White hefur fengið frelsi til að skapa og skora. Frammistaða Forest hefur ekki aðeins byggst upp á taktík – heldur hefur Nuno einnig byggt upp sterka liðsheild og sjálfstraust sem hefur smitað út frá sér. Núna fer hann fyrir liði sem ætlar sér að sanna sig bæði í úrvalsdeildinni og í Evrópu.
Leikmannaglugginn: Það stærsta sem Forest gerði í sumar var að halda Gibbs-White með herkjum. Félagið hefur misst nokkra aðra leikmenn og stærst var að Anthony Elanga fór í Newcastle. Það verður spennandi að fylgjast með nýju Brasilíumönnunum í liði Forest og að sjálfsögðu arftaka Elanga sem kemur frá Sviss.
Komnir:
Dan Ndoye frá Bologna - 34 milljónir punda
Jair Cunha frá Botafogo - 10,2 milljónir punda
Igor Jesus frá Botafogo - 10 milljónir punda
Farnir:
Anthony Elanga til Newcastle - 55 milljónir punda
Danilo til Botafogo - 20 milljónir punda
Ramón Sosa til Palmeiras - 10 milljónir punda
Matt Turner til Lyon - 6,8 milljónir punda
Andrew Omobamidele til Strasbourg - 6,8 milljónir punda
Lewis O'Brien til Wrexham - Óuppgefið kaupverð
Wayne Hennessey - Lagði hanskana á hilluna
Líklegt byrjunarlið

Þrír lykilmenn:
MatzSels var að margra mati besti markvörður ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Hann var keyptur til Forest í janúar 2024 og var í fyrstu talið að hann væri að koma inn sem varamarkvörður. Hann varð hins vegar fljótlega aðalmarkvörður liðsins og spilaði hverja einustu mínútu í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Hann er virkilega traustur á milli stanganna, góður í að verja og eignar sér teiginn. Þá er hann með mjög góðar spyrnur upp völlinn.
Nikola Milenkovic var stórkostlegur við hlið Murillo í vörn Forest á síðasta tímabili. Kaupin á honum voru ein þau bestu síðasta sumar en hann var keyptur frá Fiorentina fyrir aðeins 12 milljónir punda. Aðeins Arsenal og Liverpool fengu á sig færri mörk en Forest og var Milenkovic stór ástæða fyrir því. Tölfræðilega séð þá var einn besti varnarmaður deildarinnar í loftinu og því að koma boltanum í burtu. Hann er reynslumikill og verður enn mikilvægari fyrir Forest á komandi tímabili.
Morgan Gibbs-White er besti fótboltamaðurinn í liði Forest en hann varð launahæsti leikmaður félagsins í sumar þegar hann gerði nýjan samning þrátt fyrir mikinn áhuga frá Tottenham. Hann er sá sem á að skapa fyrir Forest og er mikið leitað að honum í sóknarleik liðsins. Hann tengir saman miðju og sókn með gáfum sínum og leikni, en hann er líka leiðtogi á City Ground.
Just a little reminder of what we will be seeing from Morgan Gibbs-White at the City Ground until 2028.
— Ethan Lamb (@ethanlamb01) July 26, 2025
Finger in ear celebration against Spurs? We will be there ????????#NFFC pic.twitter.com/WThzESJXxa
Fylgist með: Dan Ndoye er leikmaður sem var keyptur til Forest í sumar fyrir 34 milljónir punda frá Bologna á Ítalíu. Honum er ætlað að fylla það skarð sem Anthony Elanga skilur eftir sig, og er það stórt skarð miðað við hvernig Elanga spilaði á síðasta tímabili. Ndoye er hraður, áræðinn og leggur mikið á sig á hægri vængnum. Hann heillaði mikið á Evrópumótinu í fyrra með Sviss með gæðum sínum á boltann og hreyfingu án boltans. Hann er bara 24 ára gamall og er með hátt þak ef svo má að orði komast. Hann kemur til með að vera byrjunarliðsmaður hjá Forest og ef hann nær fljótt að aðlagast ensku úrvalsdeildinni þá gæti hann Ndoye orðið rísandi stjarna í þessari deild. Eins og áður segir verður líka gaman að sjá hvernig nýju Brasilíumennirnir koma inn í þetta og hvort ákveðnir leikmenn eins og Chris Wood nái að fylgja eftir mögnuðu tímabili.
Besta og versta mögulega niðurstaða: Besta niðurstaðan er sú að Forest fari alla leið í Evrópudeildinni og vinni þá keppni ásamt því að berjast aftur um að komast í Evrópukeppni í gegnum ensku úrvalsdeildina. Versta niðurstaðan er að Evrópuálagið verði of mikið og að Forest verði í neðri hluta ensku úrvalsdeildarinnar á komandi keppnistímabili.
Þau sem spáðu: Anton Freyr Jónsson, Elíza Gígja Ómarsdóttir, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Haraldur Örn Haraldsson, Ívan Guðjón Baldursson, Kári Snorrason, Mate Dalmay, Snæbjört Pálsdóttir, Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke og Sölvi Haraldsson.
Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni..
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. Nottingham Forest, 108 stig
11. Crystal Palace, 98 stig
12. Everton, 97 stig
13. Fulham, 93 stig
14. West Ham, 92 stig
15. Bournemouth, 85 stig
16. Brentford, 79 stig
17. Leeds, 53 stig
18. Wolves, 50 stig
19. Sunderland, 33 stig
20. Burnley, 22 stig
Athugasemdir