Sóknartengiliðurinn Reinier Jesus er að snúa aftur til heimalandsins eftir misheppnaða dvöl í Evrópu.
Reinier er 23 ára gamall og fer til Atlético Mineiro eftir fimm ár undir samningi hjá Real Madrid. Hann á aðeins eitt ár eftir af samningi hjá Real.
Atlético Mineiro greiðir ekkert fyrir leikmanninn en Real Madrid heldur 50% af endursöluvirðinu.
Reinier þótti gífurlega mikið efni á táningsárunum og var algjör lykilmaður í unglingalandsliðum Brasilíu en missti dampinn þegar komið var í U23 aldursflokk.
Real Madrid borgaði um 30 milljónir evra til að kaupa Reinier úr röðum Flamengo í janúar 2020. Þá hafði leikmaðurinn verið að raða inn mörkum í heimalandinu þrátt fyrir að hafa enn ekki náð 18 ára aldri.
Reinier var lánaður til Borussia Dortmund, Girona, Frosinone og Granada á dvöl sinni hjá Real Madrid en tókst aldrei að láta ljós sitt skína.
Atlético Mineiro er meðal sterkari liða brasilíska boltans og þar má finna nokkra áhugaverða leikmenn á borð við Guilherme Arana, Lyanco, Gustavo Scarpa, Hulk og Bernard.
Athugasemdir