Newcastle reynir við Guehi og Sesko - Sesko tilbúinn að fara til Newcastle - Liverpool skoðar Íra
   þri 05. ágúst 2025 21:13
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Besta deildin: Skrautlegt jöfnunarmark ÍA í blálokin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍA 2 - 2 Valur
0-1 Patrick Pedersen ('16 )
0-2 Patrick Pedersen ('40 , víti)
1-2 Bjarni Mark Antonsson ('50 , sjálfsmark)
2-2 Ómar Björn Stefánsson ('93 )
Lestu um leikinn

Það var ótrúleg dramatík á Akranesi í kvöld þegar ÍA fékk Val í heimsókn.

Patrick Pedersen þurfti aðeins að skora eitt mark til að skora 132. mark sitt í efstu deild sem myndi gera hann að markahæsta leikmanni í sögu deildarinnar.

Hann fékk færi strax í upphafi leiks þegar hann slapp í gegn en Árni Marinó Einarsson náði að loka á hann. Eftir rúmlega stundafjórðung braut Patrick Pedersen ísinn.

Hann kom boltanum í netið eftir sendingu frá Jónatan Inga Jónssyni. Þar kom 132. mark hnas og hann bætti þar með met Tryggva Guðmundssonar.

Hann gerði gott betur og skoraði annað mark sitt og annað mark Vals úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir að Johannes Vall braut á Jónatan Inga.

Snemma í seinni hálfleik minnkuðu Skagamenn muninn. Haukur Andri Haraldsson, sem kom inn á í hálfleik, átti sendingu á Johannes Vall sem átti skot úr þröngu færi, Bjarni Mark reyndi að koma í veg fyrir að boltinn færi inn en honum tókst það ekki og ÍA minnkaði muninn.

Skagamenn mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og fengu tækifæri til að jafna metin. Það virtist ekki ætla að takast en í uppbótatíma tókst það þegar Jón Gísli Eyland Gíslason átti sendingu og Ómar Björn Stefánsson fékk boltann í bringuna og boltinn sveif yfir Frederik Schram og í netið.

Valur er á toppnum með 34 stig, tveimur stigum á undan Víkingi og Breiðabliki sem misstigu sig um helgina. ÍA er áfram á botninum með 16 stig, stigi á eftir KR sem er í næst neðsta sæti, og þremur stigum frá öruggu sæti.
Athugasemdir
banner