„Við erum sáttir með að taka þrjú stig og að halda hreinu," sagði Gylfi Þór Sigurðsson við Fótbolta.net eftir 2-0 sigur gegn Svartfjallalandi í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 2 - 0 Svartfjallaland
Íslenska liðið skoraði tvö mörk eftir hornspyrnur - þar á meðal frá Gylfa - en liðið hafði verið að vinna í því í vikunni undir handleiðslu Sölva Geirs Ottesen.
„Við höfum farið vel yfir þetta. Sölvi er örugglega ánægðasti maðurinn í landsliðinu í dag. Hann kom inn til að bæta þetta - ekki það að þetta hafi verið slæmt hjá landsliðinu fyrir - en auðvitað er frábært að hann komi inn og hafi þessi áhrif."
Gylfi var að snúa aftur á Laugardalsvöll eftir að hafa síðast spilað með landsliðinu í fyrra. Hann vaknaði með flensu í morgun en spilaði samt leikinn.
„Ég er gríðarlega ánægður að koma aftur. Það er fátt skemmtilegra en að spila hérna," sagði Gylfi.
„Persónulega var smá vesen með heilsuna í dag. Vonandi lagast það á næstu 24 tímum. Ég hef verið slappur frá því í morgun, fékk einhvern vírus og hafði ekki mikla orku. Það er fínt að komast í gegnum þetta og vonandi verð ég skárri á mánudaginn."
Hann var alltaf staðráðinn í að spila þennan leik.
„Ég var ekkert fárveikur en mjög orkulítill og slappur. Ég hafði ekki nógu mikinn kraft til að spila 90 mínútur en ég þyrfti að vera töluvert meira veikur en þetta til að hætta við leikinn."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir