„Við lentum undir og þvílíkur karakter að koma til baka. Sérstaklega á móti sterku liði eins og Danmörku. Þvílíkur karakter og ég er ánægður með liðið.“ sagði Kristall Máni Ingason sem skoraði þrennu í 4-2 sigri U21 landsliðsins gegn Danmörku í dag.
Lestu um leikinn: Ísland U21 4 - 2 Danmörk U21
Kristall spilaði með Víking áður en hann fór út í atvinnumennskuna en honum líður vel að spila á Víkingsvellinum.
„Mér hefur alltaf liðið vel að spila hérna. Eins og sést í dag er þetta minn heimavöllur.“
Kristall er gífurlega ánægður með hvernig íslenska liðið spilaði og nýtti veikleika Danmerkur.
„Við spiluðum þetta eins og við vildum spila þetta. Leyfa þeim aðeins að halda í boltann. Danmörk vilja alltaf vera með boltann og síðan þegar þeir missa boltann eru þeir kærulausir að skila sér til baka og við nýttum okkur það.“
Var sigurinn enn sætari fyrir vikið að hann kom gegn Danmörku?
„Nei það er ekkert extra sætt að vinna á móti þeim. Sama hvaða lið þetta var þá var bara mikilvægt að fá þrjá punkta. Næsti leikur er núna mikilvægur. Við þurfum að taka öll stig sem við getum og sjá svo til hvar við endum. Það er bara svoleiðis.“
Kristall segir að liðið ætli að fagna smá núna og einbeita sér svo fljótlega að Wales.
„Við fögnum núna og hefjum endurhæfingu í kvöld. Síðan fer full einbeiting á Wales.“ sagði Kristall að lokum.
Viðtalið við Kristal má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.