„Þetta var kaflaskiptur leikur þar sem liðin skiptust á að halda í boltann og stjórna leiknum með boltann. Ætli 1-1 hafi ekki verið sanngjarnt.“ sagði Ólafur Hrannar, þjálfari Leiknis, eftir 1-1 jafntefli við Aftureldingu í Mosfellsbænum.
Lestu um leikinn: Afturelding 1 - 1 Leiknir R.
Ólafur er ánægður með liðið og frammistöðuna í dag.
„Ég er ánægður með strákana og liðið. Þrátt fyrir að við fengum mark á okkur héldum við bara skipulagi og náðum jöfnunarmarkinu fljótlega en það var gott að skora það fyrir hálfleik.“
Leiknismenn gerðu tilkall í vítaspyrnu undir lok leiks þegar Róbert Hauks var tekinn niður í teig Aftureldingar.
„Mér sýndist hann bara fara í hann (Róbert) án þess að fara í boltann. En ég á eftir að sjá það aftur og ætla ekkert að koma með neinn sleggjudóm með það. Bæði lið gerðu tilkall til að fá vítaspyrnu í leiknum svo bara sjáum við til hvort við höfðum rétt fyrir okkur með það að gera.“
Ólafur segir að stígandinn í Leiknisliðinu sé góður og að seinustu leikir hafa spilast vel fyrir þá.
„Stígandinn hefur verið mjög góður. Gróttuleikurinn var virkilega vel spilaður, við tókum líka skref fram á við í dag gegn góðu Aftureldingarliði. Við erum mjög ánægðir með skrefin sem við erum að taka fram á við.“ sagði Ólafur Hrannar eftir leik.
Viðtalið við Ólaf má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.