„Bara geggjað að fá þrjú stig, ekki nógu gott gegn KA og Fram og því var gott að labba loks útaf vellinum með þrjú stig." Segir Jónatan Ingi Jónsson sem skoraði þrennu í 5-1 sigri Vals gegn HK.
Lestu um leikinn: Valur 5 - 1 HK
„Mér fannst við almennilegir allt frá byrjun og keyrðum yfir þá við duttum aðeins niður eftir að við komumst yfir en við vörðumst almennilega og nýttum þau færi sem við fengum."
Jónatan Ingi sótti rautt spjald og víti þegar hann var rifinn niður í teignum af Ívari Erni Jónssyni.
„Það kemur góður bolti og ég tek góða snertingu og kemst fram fyrir manninn. Þegar ég er að fara skjóta togar hann í mig. Ef hann tæklað mig væri þetta gult en hann togar í mig og reynir ekki við boltann og samkvæmt reglunum er þetta bara rautt spjald."
Þetta var annar leikur Vals undir stjórn Túfa sem tók við liðinu á dögunum.
„Hann er flottur þjálfari, ég hef ekki unnið með honum áður en margir í liðinu hafa gert það. Ég er spenntur fyrir komandi tímum. Það eru litlir hlutir sem eru öðruvísi hjá honum en hjá Arnari en það kemur meira með tímanum."
Athugasemdir