Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fös 12. ágúst 2022 12:38
Ívan Guðjón Baldursson
Christensen og Kessie óskráðir - Breytti um prófílmynd og eyddi færslu
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Það lítur ekki út fyrir að Andreas Christensen og Franck Kessié, nýir leikmenn Barcelona sem gengu í raðir félagsins fyrr í sumar á frjálsri sölu, verði skráðir í tæka tíð fyrir fyrstu umferð spænsku deildarkeppninnar.


Barcelona tekur á móti Rayo Vallecano í fyrstu umferð nýs tímabils á Spáni klukkan 19:00 á morgun, laugardag.

Fjölmiðlar hafa keppst við að greina frá því á undanförnum dögum að bæði Christensen og Kessie eru með sérstök ákvæði í samningum sínum við Barcelona sem gera þeim kleift að yfirgefa félagið á frjálsri sölu ef þeir verða ekki skráðir í deildarkeppnina í tæka tíð.

Christensen virðist sérstaklega ósáttur með þessa þróun mála og eyddi meðal annars út færslu af Instagram þar sem hann tilkynnti félagsskipti sín til Barcelona. Þá breytti hann prófílmyndinni sinni á Instagram aftur til baka og var í Chelsea treyju með verðlaunapening úr Meistaradeildinni um hálsinn í einn dag. Í dag er hann þó aftur kominn í treyju Barcelona á prófílmyndinni.

ESPN er meðal fréttamiðla sem greinir frá þessari þróun mála og verður athyglisvert að fylgjast með á næstu dögum og vikum. Ekki er ljóst hversu marga leikmenn Barcelona hefur efni á að skrá en Christensen og Kessié eru ekki einir á báti því Raphinha, Robert Lewandowski og Jules Koundé eru einnig nýkomnir til félagsins.

Þá hafa nýir samningar við Ousmane Dembele og Sergi Roberto ekki heldur verið skráðir vegna fjárhagsörðugleika.

Börsungar hafa eytt um 150 milljónum evra í nýja leikmenn í sumar og eru enn að reyna að bæta við sig. Joan Laporta forseti hefur fulla trú á að félaginu takist að skrá alla nýju leikmennina fyrir gluggalok.


Athugasemdir
banner
banner