Smith Rowe og Nelson á förum - Chelsea náði samkomulagi við Aston Villa - Úrvalsdeildarfélög keppast um Abraham - Arsenal vill Nico Williams -...
   lau 12. desember 2020 11:00
Hafliði Breiðfjörð
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Afrekið er þeirra
Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landslið Íslands tryggði sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins fjórða mótið í röð í byrjun mánaðarins en því miður hefur árangurinn fallið í skuggann af framkomu þjálfara liðsins og niðurrifi ákveðinna fjölmiðlamanna og annarra á liðinu.

Ég fékk það verkefni í upphafi vinnudags föstudaginn 4. desember að vinna frétt af framkomu Jóns Þórs Haukssonar landsliðsþjálfara eftir að liðið tryggði sér sæti á EM þremur dögum áður. Mér varð það fljótt ljóst að fréttin gæti kostað hann starfið og það truflaði mig mikið. Ég vissi samt að sem fjölmiðill höfum við skyldu á að veita aðhald og ég óttaðist að ef við gerðum ekkert þá yrði málið þaggað niður. Ég tel reyndar að ég hafi fengið góða vísbendingu um að það hefði verið raunin þegar það kom í ljós að stjórn KSÍ var ekki tilkynnt um uppákomuna á fundi stjórnar deginum áður.

Ég vandaði mig sérstaklega við vinnslu fréttarinnar. Það tók mig 7,5 klukkustundir að vinna fréttina og bæði KSÍ og Jón Þór fengu að svara fyrir hana áður en hún var birt. Þriðjudaginn 8. desember var vika liðin frá uppákomunni og þá sagði Jón Þór starfi sínu lausu og KSÍ hefur ítrekað að það hafi verið hans ákvörðun en ekki sambandsins.

Íslenska landsliðið var fórnarlamb þetta kvöld í Ungverjalandi þegar þær ætluðu að fagna sæti á EM 2022 í Englandi en framkoma þjálfarans skemmdi kvöldið. Þrátt fyrir það hefur verið komið fram við þær sem gerendur og látið sem árangur liðsins sé einungis fráfarandi þjálfara að þakka.

Ýmist á ákveðnum fjölmiðum og samfélagsmiðlum hefur umræðan skapast af kvenfyrirlitningu og hæst hefur látið fjölmiðlamaður sem hefur valið að sleppa því að geta fjölskyldutengingar sinnar við fráfarandi þjálfara. Slíka umfjöllun verður að taka með fyrirvara.

Árangur liðsins undir stjórn Jóns Þórs var góður í undankeppni EM þar sem liðið vann alla sína leiki nema tvo. En það er taktlaust að reyna að bera saman árangur hans sem þurfti að hætta svo skyndilega eftir aðeins eina undankeppni og forvera hans sem fóru með liðið í lokakeppni Evrópumóts og undankeppnir Heimsmeistaramóts. Til að fara í sanngjarnari samanburð þá sjáum við hér að neðan árangurinn í undankeppnum EM síðustu ára. Sigurður Ragnar Eyjólfsson var með liðið á mótunum 2009 og 2013, Freyr Alexandersson árið 2017. Árangur liðsins undir stjórn allra þriggja var frábær.

EM 2009:
8 leikir, 6 sigrar, 2 töp
- (Sigur og jafntefli í umspili gegn Írum)

EM 2013:
10 leikir, 7 sigrar, 1 jafntefli, 2 töp
- (2 sigrar í umspili gegn Úkraínu)

EM 2017:
8 leikir, 7 sigrar, 1 tap

EM 2022:
8 leikir, 6 sigrar, 1 jafntefli, 1 tap

Jón Þór sagði starfi sínu lausu vegna samtala sem hann átti við leikmenn liðsins undir áhrifum áfengis þegar árangrinum var fagnað. Sjálfur segir hann í yfirlýsingu þriðjudaginn 8. desember samtölin hafa snúist um frammistöðu og þjálfun einstakra leikmanna.

Það stangast á við yfirlýsingu landsliðsins sem sagði í yfirlýsingu sinni miðvikudaginn 9. desember að samtöl Jóns Þórs hafi verið persónuleg um önnur mál en fótbolta og hafi valdið trúnaðarbresti milli hans og leikmanna liðsins.

Það var íslenska landsliðið sem heild sem náði þeim árangri að komast á fjórða Evrópumótið í röð. Það er mikilvægt að þær fái hrósið fyrir þann árangur en ekki einungis fráfarandi þjálfari. Snúum umræðunni nú að árangri liðsins. Afrekið er þeirra.

Áfram Ísland!

- Undirritaður er framkvæmdastjóri Fóbolta.net og hef unnið markvisst að því frá 2007 að auka hlut fótbolta kvenna í umfjöllun ár frá ári.
Athugasemdir
banner
banner
banner