Alex Freyr Hilmarsson fyrirliði ÍBV skoraði eina mark leiksins í 1-0 sigri í jöfnum og tíðindalitlum slag gegn Stjörnunni í Bestu deildinni fyrr í kvöld.
Þetta var fyrsti sigur ÍBV í fimm leikjum í deildinni og er liðið partur af afar þéttum pakka um miðja deild - þremur stigum frá fallsæti og aðeins einu stigi frá sæti í efri hlutanum.
„Það var komið smá síðan síðast," sagði kátur Alex Freyr í viðtali að leikslokum. „Þetta gerir mikið fyrir sjálfstraustið hjá okkur. Ef við fáum ekki á okkur mark þá eigum við ekki að geta tapað."
Þetta er annar leikur Eyjamanna á nýju gervigrasi í Vestmannaeyjum og aftur tókst heimamönnum að halda hreinu eftir markalaust jafntefli við Víking R. í síðustu umferð. Stefnan er sett á að enda í efri hluta deildarinnar en það eru sjö umferðir eftir fyrir tvískiptingu.
„Við viljum enda í topp sex og mér finnst við vera með lið í það. Við erum að smella saman og þetta virðist allt vera að koma núna."
Athugasemdir