Jökull Elísabetarson þjálfari Stjörnunnar var ósáttur eftir naumt tap á útivelli gegn ÍBV í Bestu deildinni í kvöld.
ÍBV tókst að gera sigurmarkið í jöfnum og bragðdaufum leik og var Jökull svekktur að leikslokum.
„Þetta var svekkjandi leikur og úrslitin með. Við vorum hægir og fyrirsjáanlegir á meðan þeir voru þéttir. Þetta hefur ekki verið skemmtilegasti leikurinn á að horfa en þeir gerðu mjög vel að loka vörninni sinni svona. Mér fannst þetta ekki leikur sem við áttum að vinna en það var óþarfi að tapa honum," sagði Jökull, sem vonast til að fá Emil Atlason til baka úr meiðslum fyrir næsta leik sem er eftir tvær vikur.
Jökull segir að Stjarnan stefni á Evrópusæti en liðið er í fimmta sæti sem stendur, með 21 stig eftir 15 umferðir. Sex stigum frá Breiðabliki í þriðja sætinu.
Fjórða sætið gæti þó gefið þátttökurétt í Evrópu ef Vestri tapar úrslitaleik Mjólkurbikarsins gegn Val í ágúst.
„Þetta eru tveir leikir í röð þar sem við þurfum að gera meira, þessi leikur og síðasti. Við þurfum að gíra okkur vel upp og mæta sterkari inn í næsta leik."
Athugasemdir