Georgíski landsliðsmarkvörðurinn Giorgi Mamardashvili gekk til liðs við Liverpool fyrir um 35 milljónir evra um mánaðamótin.
Hann tekur sæti Caoimhín Kelleher í hópnum og mun því berjast við brasilíska landsliðsmarkvörðurinn Alisson Becker um byrjunarliðssætið.
Mamardashvili segist vera tilbúinn fyrir þá baráttu en Alisson, sem verður 33 ára í október, er ennþá með tvö ár eftir af samningi.
„Ég er mjög ánægður að vera kominn hingað," sagði Mamardashvili eftir æfingaleik gegn Stefáni Teiti Þórðarsyni og félögum í Preston um helgina.
„Þetta er mjög stór stund í mínu lífi vegna þess að ég er kominn til Liverpool. Þetta er draumur að rætast fyrir mig. Mér líður eins og ég sé tilbúinn í slaginn, ég er mjög stoltur af því að vera hér.
„Ég get ekki beðið eftir að byrja að æfa með Alisson, ég get lært mikið af honum. Það verður mjög erfitt að berjast við hann um byrjunarliðssætið en ég er tilbúinn. Ég er spenntur fyrir þessari áskorun. Ég er hérna til að gera mitt besta og hjálpa liðinu."
Mamardashvili er 24 ára gamall og var aðalmarkvörður hjá Valencia í þrjú og hálft ár fyrir félagaskiptin til Liverpool.
Athugasemdir