Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   lau 14. september 2019 10:28
Magnús Már Einarsson
Álitsgjafar spá í bikarúrslitaleik FH og Víkings
FH og Víkingur R. mætast á morgun.
FH og Víkingur R. mætast á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Willum Þór Þórsson er einn af álitsgjöfunum.
Willum Þór Þórsson er einn af álitsgjöfunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Benedikt Bóas Hinriksson er einn af álitsgjöfunum.
Benedikt Bóas Hinriksson er einn af álitsgjöfunum.
Mynd: Úr einkasafni
Mikael Nikulásson.
Mikael Nikulásson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH og Víkingur R. mætast í úrslitum Mjólkurbikarsins á Laugardalsvelli klukkan 17:00 í dag.

Fótbolti.net fékk nokkra álitsgjafa til að spá í spilin fyrir þennan stórleik!



Baldur Sigurðsson, Stjarnan
Ég reikna með miklu fjöri í þessum leik. Miðað við síðasta leik á milli þessara liða í krikanum, má búast við mikið af mörkum ef menn verða ekki yfirspenntir og verða yfirvegaðir í færunum sínum. Því færin eiga eftir að verða mörg hef ég trú á. Bæði lið vilja spila fótbolta og báðir þjálfarar hafa það stórt egó að þeir munu ekki breyta leikstílnum fyrir þennan leik. Bæði lið munu því leggja upp með hápressu og reyna að refsa fyrir öll mistök sem verða gerð í uppspilinu. Leikurinn endar 3-3 eftir venjulegan leiktíma og svo verður mark beint úr aukaspyrnu á 118. mínútu sem tryggir sigurinn. Sé ekki hvort það verður Óttar eða Brandur sem framkvæmir spyrnuna.

Willum Þór Þórsson, Alþingismaður
Tvö skemmtileg, vel spilandi lið, sem eiga það sameiginlegt að hafa bætti sinn leik jafnt og þétt þegar liðið hefur á deildina og það hljómar ágætlega við þá staðreynd að þau hafi spilað sig alla leið í bikarúrslit. Segja má að innkoma Morten Beck hafi skipt sköpum fyrir FH auk þess sem Davíð Þór hefur spilað sig í betra form sem sá mikilvægi hlekkur sem hann er fyrir FH. Sama hefur í raun gerst hjá Víkingum með tilkomu Kára Árnasonar hefur aginn aukist í skipulaginu og liðið er þéttara og skilvirkara, auk þess sem ungu leikmönnunum hefur vaxið ásmegin með miklum spilatíma og vaxandi sjálfstrausti þar sem innkoma Óttars Magnúsar hefur gefið þeim aukið frelsi ekki ósvipað og Morten gerir fyrr FH. Þjálfararnir tveir hafa því unnið sína vinnu mjög vel og tekist að bæta sín lið sem er mikill styrkur og eiga því skilið á margan hátt að vera í úrslitum, ef hægt er að segja það. Arnar Gunnlaugsson hefur í raun alveg gert magnaða hluti með Víkingsliðið. Um úrslit leiksins er erfitt að spá fer eftir því hverjir verða leikfærir eða ekki leikfærir, held að fjarvera Kára Árnasonar geti orðið Víkingum erfið, ekki bara sú staðreynd, heldur umræðan um það, því ég tel liðið án hans alveg nógu gott til þess að sigra. Ég óska auðvitað báðum liðum góðs gengis og vonandi fáum við fjörugan leik og þá spilamennsku sem þessi lið hafa verið að sýna, framlengingu, vító og allan pakkann. En þar sem ég er neyddur til að tippa á úrslit hallast ég að sigri FH. 2-1.

Ríkharð Óskar Guðnason, Stöð 2 Sport
2 - 1 Víkingur. Ég finn oft svona hluti á mér. Víkingur í fyrsta sinn í úrslitum síðan 1971. Liðið var um tíma í fallbaráttu en samt ákvað Arnar Gunnlaugs að halda sig við leikstílinn sem er búið að gera liðið eitt það skemmtilegasta í deildinni. Margir hefðu farið í gamla góða hlaupa og djöflast stílinn og reyna að safna stigum þannig. Liðið verður verðlaunað fyrir frábæran fótbolta með dollu á laugardaginn þrátt fyrir að Kári verði ekki með. Þekkjandi Arnar Gunnlaugs þá kemur hann því inn í hausinn á arftaka Kára að hann verði maðurinn í leiknum.

Kristján Guðmundsson, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar
Það er spennandi úrslitaleikur framundan. Bæði lið hafa á að skipa leikmönnum sem gera út um leiki með hæfni sinni en það er þó leikáætlunin sem er lykilatriði í leikjum sem þessum og að leikmenn hafi trú á því uppleggi sem sett er upp fyrir úrslitaleikinn. Til þess að spá einhverju um úrslit og sigurvegara að þá spái ég FH sigri 2-1. Ég á von á því að upplegg þjálfarateymis FH inn í leikinn verði sterkara en upplegg Víkinga en ég er þess þó fullviss um að þjálfarateymi Víkinga séu að setja upp óvænta leikáætlun sem ég býð spenntur eftir að sjá á laugardaginn. Fáum við sigurmark á lokamínútunni?

Benedikt Bóas Hinriksson, Fréttablaðið
Ég vona að Víkingur vinni, bara þannig að Tómas Þór stórvinur minn fái að fagna titli. Það er ekkert skemmtilegra en að fagna titli. Ég, sem fordekraður Valsari undanfarin ár, þekki það mjög vel. Og eiginlega besti bikarfögnuður sem ég hef tekið þátt í var einmitt eftir að við urðum bikarmeistarar gegn KR. Þvílíkur dagur og þvílíkt kvöld. Ég óska þess að hann fái eitt slíkt kvöld. Hann á það skilið. Segjum 2-1. Sölvi skorar eftir horn en Brandur jafnar úr horni! Guðmundur Andri mætir svo á fjær og potar inn sigurmarkinu.

Ingvi Þór Sæmundsson, Vísir
Við fáum allavega fleiri mörk en í bikarúrslitaleiknum í fyrra. FH og Víkingur leggja það ekki í vana sinn að halda hreinu og við fáum mörk á morgun. Hallast að 3-2 sigri FH. Reynslan er með FH-ingum í liði og þótt þeir hafi ekki alltaf verið sannfærandi í sumar hafa þeir unnið fullt af seiglusigrum. Víkingar verða flottir eins og oft áður en FH-ingar hænuskrefi framar. Ólafur Kristjánsson heldur upp á tíu ára afmæli fyrsta bikarmeistaratitils Breiðabliks með því að gera Fimleikafélagið að bikarmeisturum.

Mikael Nikulásson, Dr. Football
Það er eitthvað sem segir mér að við séum að fara að fá skemmtilegasta úrslitaleik bikarsins í nokkur ár. Bæði lið verið á blússandi siglingu og spila skemmtilegan fótbolta þegar þau nenna því og hvenær er eiginlega tíminn til að nenna því ef ekki á laugardaginn? En það er eitthvað sem segir mér Víkingar muni vinna sinn fyrsta bikarmeistaratitil í 48 ár. Það byggist fyrst og fremst á því að Arnar Gunnlaugs hefur hreinlega prentað það inn í sína leikmenn frá því að þeir komust í undanúrslit að þeir muni vinna þennan bikar og svo reikna ég með að Óli Kristjans muni því miður geyma minn mann Guðmann Þórisson á bekknum í þessum leik og það mun koma FH ingunum um koll og eftir framlegingu fagna víkingarnir eins og óðir menn 3-2 sigri þar sem Óttar Magnús tryggir sigurinn með geggjuðu marki beint úr aukaspyrnu.

Lucas Arnold, sérfræðingur í Pepsi Max-deildinni
Eins mikil 50/50 bikarúrslitaleikur og þeir geta orðið. Ef Kári missir af leiknum þá gefur það FH auðvitað forskot en við vitum öll að Logi (Tómasson) elskar stóra sviðið ef hann kemur inn í vinstri bakvörðinn af þessum sökum. Magatilfinningin segir að Vikes taki þetta. Ég hef haft trú á #EuroVikes síðan í byrjun árs. Lennon er hættulegasti maðurinn fyrir FH eins og alltaf og hann elskar stórleiki. Ég get bara ekki séð Vikes tapa. Lærisveinar Arnars hafa svo mikil gæði núna og það sem mikilvægara er, er að þeir hafa karakter líka. Ég held að fyrri hálfleikurinn verði rólegur og það verði 0-0 i hálfleik. Þetta springur síðan allt upp þegar Erlingur Agnarsson skorar fáránlegt mark af 25 metra færi í síðari hálfleik. GAT (Guðmundur Andri Tryggvason) mun skora og mark frá Lennon kemur ekki í veg fyrir 2-1 sigur. Njótið!

Smelltu hér til að kaupa miða á úrslitaleikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner