Arsenal ræðir við Palace um Eze - Mateta hitti Liverpool - McAtee skoðar aðstæður í Frankfurt
   þri 15. júlí 2025 17:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Athyglisvert atvik í leik ÍA og KR - „Muniði eftir að hafa séð svona?"
Erik Tobias Sandberg, varnarmaður ÍA.
Erik Tobias Sandberg, varnarmaður ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var býsna athyglisverður dómur sem féll í leik ÍA og KR í Bestu deildinni í gær. Það er ekki oft sem maður sér slíkan dóm.

Helgi Mikael Jónasson dæmdi nefnilega óbeina aukaspyrnu eftir að Aron Sigurðarson hafði fallið í teignum. Hann dæmdi hins vegar ekki brot.

„Helgi Mikael dæmir ekkert en Erik Tobias (Sandberg, varnarmaður ÍA) gjörsamlega urðar yfir Aron Sig og er að saka hann um leikaraskap," sagði Elvar Geir Magnússon í Innkastinu.

„Hann stendur þarna yfir honum og nánast froðufellir. Þá flautar Helgi Mikael og dæmir óbeina aukaspyrnu á reiði Eriks."

„Muniði eftir að hafa séð svona?" spurði Valur Páll Eiríksson í þættinum.

„Mig langar til að segja að ég hafi séð svona í alþjóðlegum bolta, en ekki á Íslandi. Ég held að ég hafi séð svona. Ég hélt fyrst að þetta væri víti. Óbein aukaspyrna er hárréttur dómur þarna. Það er eitt að láta menn heyra það en hann hraunar yfir hann og kemur svo aftur og urðar aftur yfir hann. Þá held ég að þetta sé réttur dómur hjá Helga. Þetta er dýrt því Erik er á leiðinni í bann núna," sagði Valur Gunnarsson.

KR náði ekki að nýta sér óbeinu aukaspyrnuna en þetta var athyglisvert atvik.

„Það var sagt í hálfleik þegar við vorum í vippinu að í leik Vestra og Fram, sem Helgi Mikael var að dæma um daginn, þá hefði þetta verið að gerast trekk í trekk án þess að Helgi dæmdi eitthvað. Mögulega hefur hann fengið viðvörun frá eftirlitsmanni um að þetta ætti að vera óbein aukaspyrna," sagði Elvar Geir.

Hægt er að hlusta á allan þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan.
Innkastið - Fúlir KR-ingar keyra Hvalfjörðinn
Athugasemdir
banner
banner