Arsenal ræðir við Palace um Eze - Mateta hitti Liverpool - McAtee skoðar aðstæður í Frankfurt
   þri 15. júlí 2025 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Sneri aftur eftir tveggja mánaða fjarveru - „Gæti ekki verið ánægðari"
Oliver Heiðarsson.
Oliver Heiðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Oliver hér til hægri.
Oliver hér til hægri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV vann góðan sigur á Stjörnunni í gær.
ÍBV vann góðan sigur á Stjörnunni í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Oliver í leik með ÍBV í sumar.
Oliver í leik með ÍBV í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Oliver er að vekja áhuga.
Oliver er að vekja áhuga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég gæti ekki verið ánægðari að vera kominn aftur út á völlinn og hjálpa strákunum að sækja langþráðan sigur," sagði Oliver Heiðarsson í samtali við Fótbolta.net í dag.

Oliver sneri til baka í gær eftir tveggja mánaða fjarveru. Hann meiddist á hné í maí og hefur unnið hart að því að koma til baka eftir það. Í gær sneri hann svo aftur á völlinn þegar ÍBV vann kærkominn 1-0 sigur á Stjörnunni.

Sætt að sækja þennan sigur?

„Klárlega. Það er búið að vera erfitt að vinna leiki og skora síðan landsleikjafríið síðasta var. Við tókum það sem við lögðum upp með á móti Víkingum inn í þennan leik og bættum aðeins í sóknarleikinn. Að mínu mati gekk það mjög vel. Þeir fengu eiginlega engin færi," sagði Oliver.

Var farið að klæja í puttana
Oliver hefur ekki oft glímt við meiðsli á sínum ferli og hvað þá svona erfið meiðsli. Hann var farið að klæja í puttana að snúa aftur á fótboltavöllinn.

„Mig klæjaði í puttana. Ég var pirraður að vera ekki inn á að hjálpa strákunum. Það er óþægileg tilfinning að vita að maður ætti að geta hjálpað strákunum en vera ekki með líkamann í það," segir Oliver.

„Í síðustu viku tók ég alla vikuna í snertingu. Ég tók tvær mjög erfiðar æfingar í röð. Þá kom vökvi í hnéð. Tveimur dögum fyrir leik var ég bara með í upphitun og reit, leyfa hnénu að jafna sig. Vökvinn var farinn í gær og ég var verkjalaus. Ég gat spriklað aðeins í gær og er bara góður núna. Ég er smá stífur sem er skiljanlegt."

Hann segir það mikinn létti að snúa aftur og var hann ánægður með hvernig endurhæfingin gekk.

„Þetta er mikill léttir. Ég var smá smeykur að koma aftur en það er mjög mikill léttir að það var ekkert 'setback' í þessu."

„Ég hef eiginlega alveg sloppið við meiðsli á mínum ferli. Þetta er bara svipað og að vera í leikbanni. Manni líður eins og maður geti gert eitthvað, en samt má maður það ekki," segir Oliver.

Hásteinsvöllur allur að koma til
Leikurinn gegn Stjörnunni í gær var annar leikur Eyjamanna á nýja gervigrasinu á Hásteinsvelli. Hann var ekki frábær gegn Víkingum á dögunum en er að verða betri.

„Mér finnst það bara geggjað," segir Oliver um nýja gervigrasið.

„Í grunninn líður mér betur á venjulegu grasi en þetta er mjög gott fyrir okkur og félagið. Það var svolítið þreytt að vera alltaf á Þórsvelli því maður vissi aldrei hvernig grasið myndi vera. Annað hvort mýri eða bara eins og parket. Þegar það var gott veður þá varð það mjög þurrt. Loksins getum við verið á jöfnu álagi alltaf og sérstaklega á veturna. Núna getum við líka æft á fullum velli á þeim tíma árs."

„Það þarf að æfa aðeins meira á vellinum, en þetta er klárlega orðið skárra. Það er svolítið eins og boltinn fljóti á grasinu. Það er víst oft þannig með nýlagt gervigras. Hann er allavega betri en hann var fyrir viku. Það er verið að reyna að setja álag á völlinn svo hann verði betri."

Með áhuga erlendis frá
Oliver, sem er 24 ára, á nokkra mánuði eftir af samningi sínum við ÍBV en það hefur verið mikill áhugi á honum síðustu mánuði, bæði hér á Íslandi og erlendis frá. Það er áhugi á honum frá Danmörku, Svíþjóð og Króatíu.

Oliver segist ekkert vera að spá í þessu núna en það sé vissulega hrós að fá þennan áhuga.

„Ekkert þannig. Ég leyfi bara félaginu að díla við það. Ef það fer eitthvað lengra, þá fer maður kannski að pæla í því," segir Oliver.

„Þetta er stórt hrós. Það eru ekki allir sem fá áhugann frá félögum að utan. Þetta er ákveðið hrós og sérstaklega þegar maður var búinn að vera meiddur í fjórar vikur þegar þetta kemur upp."

Núna er fókus á framhaldinu með ÍBV og er hann spenntur fyrir því að takast á við það. ÍBV er í fallbaráttu sem er mjög hörð í Bestu deildinni þessa stundina.

„Þetta er mjög spennandi. Ef maður vinnur tvo leiki þá er maður liggur við kominn upp um einhver sex eða sjö sæti. Það geta allir unnið alla miðað við hvernig deildin er að þróast í ár. Þetta er skemmtilegt því það er enginn þannig séð að stinga af og enginn skilinn eftir. Þetta er allt opið og það er ekki hægt að afskrifa eitt né neitt."

„Það er gott að fá smá frí núna, gott að fá þessar tvær vikur til að hvíla sig. Við erum tilbúnir í næsta próf og erum spenntir fyrir næsta leik," sagði Oliver að lokum.
Athugasemdir
banner