Arsenal ræðir við Palace um Eze - Mateta hitti Liverpool - McAtee skoðar aðstæður í Frankfurt
   þri 15. júlí 2025 08:20
Ívan Guðjón Baldursson
O'Riley og Ferguson spenntir fyrir Róm
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Sky á Ítalíu heldur því fram að tveir leikmenn Brighton, þeir Matt O'Riley og Evan Ferguson, séu áhugasamir um að ganga til liðs við AS Roma á Ítalíu.

Rómverjar eru að reyna að nýta sér áhuga leikmannanna til að lækka kaupverðið á þeim.

Roma hefur sýnt O'Riley mikinn áhuga í sumar en Gian Piero Gasperini nýráðinn þjálfari er gríðarlega hrifinn af honum og reyndi að kaupa til Atalanta þegar hann var við stjórnvölinn þar.

Ítalíumeistarar Napoli lögðu fram tilboð í O'Riley fyrr í sumar en eru ekki tilbúnir til að kaupa hann. Þeir þurfa fyrst að selja miðjumann áður en hann þeir geta keypt nýjan inn.

Talið er að O'Riley gæti komið til með að kosta um 35 milljónir evra á meðan kaupverðið á Ferguson er nær 45 milljónum.

Atalanta er einnig meðal félaga sem hafa sýnt Ferguson áhuga en Rómverjar eru í góðri stöðu þar sem báðir leikmennirnir eru afar áhugasamir um að spila undir stjórn Gasperini í höfuðborginni.

Roma endaði í fimmta sæti ítölsku deildarinnar á síðustu leiktíð og tekur því þátt í Evrópudeildinni í haust.

O'Riley er 24 ára og kom við sögu í 23 leikjum á sínu fyrsta tímabili með Brighton.

Ferguson er tvítugur framherji sem skoraði aðeins eitt mark í fimmtán leikjum á síðustu leiktíð. Hann þótti gríðarlega mikið efni þegar hann skoraði 10 mörk í 25 leikjum með Brighton fyrir tveimur árum en hefur ekki staðið undir væntingum eftir meiðslavandræði. Hann lék á láni hjá West Ham í vor en fann ekki taktinn þar heldur.

Þeir eiga báðir fjögur ár eftir af samningi við Brighton.
Athugasemdir
banner