Liverpool leitar að sóknarmanni og blandar sér í baráttuna um Ekitike - Newcastle segir Isak ekki til sölu
   mið 16. júlí 2025 18:30
Brynjar Ingi Erluson
Ekitike og Isak til Liverpool?
Alexander Isak
Alexander Isak
Mynd: EPA
Hugo Ekitike
Hugo Ekitike
Mynd: EPA
Englandsmeistarar Liverpool ætla sér að styrkja sóknarlínuna áður en tímabilið fer af stað en nokkrir öflugir framherjar hafa verið orðaðir við félagið.

Liverpool er að reyna selja Darwin Nunez og þá þarf Liverpool að bæta við öðrum framherja fyrir Diogo Jota, sem lét lífið í bílslysi í byrjun mánaðarins.

Athletic og Fabrizio Romano hafa bæði talað um að Liverpool sé í sambandi við Newcastle varðandi kaup á Alexander Isak. Newcastle hefur haldið því fram að hann sé ekki til sölu, en Liverpool ætlar samt að láta á það reyna.

Newcastle er í viðræðum við Eintracht Frankfurt um franska sóknarmanninn Hugo Ekitike. Hann er aðalskotmark Newcastle, en einnig á blaði hjá Liverpool sem hefur einnig sett sig í samband við Frankfurt.

Liverpool sér leik á borði. Ef Newcastle neitar að selja Isak þá mun Liverpool gera allt til að fá Ekitike og um leið eyðileggja fyrir Newcastle.

BILD heldur því hins vegar fram að græðgi Liverpool sé töluvert meiri og að félagið ætli að fá bæði Isak og Ekitike sem myndi kosta félagið að minnsta kosti 200 milljónir punda í heildina.

Liverpool hefur þegar eytt um 200 milljónum punda í þá Florian Wirtz, Milos Kerkez og Jeremie Frimpong, en það er bara byrjunin ef marka má erlenda miðla.
Athugasemdir
banner
banner