banner
   fim 19. mars 2020 22:00
Ívan Guðjón Baldursson
Wenger, Mourinho og Pochettino senda skilaboð vegna veirunnar
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin birti myndband á dögunum þar sem knattspyrnustjórar segja fólki hvernig á að haga sér í miðjum heimsfaraldri.

Arsene Wenger, Mauricio Pochettino og Jose Mourinho eru meðal þeirra sem tjá sig í myndbandinu.

„Við vitum öll að ástandið með kórónaveiruna er mjög alvarlegt og það er nauðsynlegt að setja heilsuna í fyrsta sæti. Þetta eru fimm bestu taktíkirnar til að tækla kórónaveiruna - ég hvet ykkur öll til að fylgja þessum taktíkum af aga," sagði Wenger.

1 - Hendur
„Þetta byrjar á höndunum," segir Pochettino. „Vinsamlegast þvoðu þér oft um hendurnar, helst með sýklaeyðandi lausn."

2 - Olnbogar
Casey Stoney, þjálfari kvennaliðs Manchester United, tók við. „Beygið olnbogana og notið þá til að halda utan um munn og nef þegar þið hnerrið eða hóstið. Ef þið notið bréf þá á að henda því strax."

3 - Andlit
„Haldið ykkur frá því að snerta augun ykkar, nef og munn. Þetta getur komið í veg fyrir að vírusinn komist inn í líkamann ykkar," sagði Aliou Cisse, landsliðsþjálfari Senegal, á frönsku.

4 - Fjarlægð
Nú var röðin komin að Mourinho sem lét vaða á ensku og talaði um félagslegu hliðina. „Þegar það kemur að félagslífi þá er mikilvægt að taka skref til baka - haltu þig minnst meter frá fólki sem hóstar eða hnerrar."

5 - Líðan
Næst var komið að Jill Ellis, fyrrum landsliðsþjálfara kvennaliðs Bandaríkjanna. „Ef þér líður illa, vertu heima. Í löndum sem eru undir einangrun þarftu að halda þig heima þó þér líði vel. Vinsamlegast fylgið öllum leiðbeiningum frá yfirvöldum."

Gianni Infantino, forseti FIFA, kom inn að lokum og bætti sjöttu taktíkinni við.

6 - Minni
„Haldið ykkur upplýstum, munið eftir og fylgið þessum ráðleggingum. Þannig hjálpið þið Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni í baráttunni gegn kórónaveirunni. Saman munum við vinna þennan erfiða leik!"
Athugasemdir
banner
banner
banner