Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   fim 19. nóvember 2020 15:30
Elvar Geir Magnússon
„Ofboðslega sárt fyrir ungan leikmann"
Willum Þór Willumsson með U21 landsliðinu.
Willum Þór Willumsson með U21 landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Willum Þór Willumsson mun missa af tveimur síðustu leikjum BATE Borisov í deildinni í Hvíta-Rússlandi. BATE er á toppnum fyrir lokaumferðirnar tvær, stigi á undan Shakhtyor Soligorsk og fjórum stigum á undan Neman Grodno og Torpedo Zhodino.

Willum fór meiddur af velli þegar íslenska U21 landsliðið vann það írska á sunnudaginn en hann hefur verið að spila í gegnum meiðsli að undanförnu.

„Hann var að koma úr myndatöku hjá liðslækninum í Hvíta-Rússlandi og hann er með brot í ristinni. Það er ekki alveg í sundur en í raun ótrúlegt að hann hafi harkað sig í gegnum þessa leiki. Hann hefur verið að spila meiddur í Hvíta-Rússlandi og U21-landsleikina," segir faðir hans, Willum Þór Þórsson, sem er viðmælandi hlaðvarpsþáttarins Arnarhóll.

Willum yngri, sem er 22 ára, átti að vera í A-landsliðshópnum sem lék gegn Englandi í gær.

„Hann hefur fengið úr þessu skorið. Eftir leikinn gegn Írum gat hann ekki stigið í fótinn og gat ekki gefið kost á sér í þetta verkefni gegn Englendingum. Það er auðvitað ofboðslega sárt fyrir ungan leikmann, leikur gegn Englandi gegn Wembley. En eins og ég sagði við hann þá kemur leikur eftir þennan."

Eins og áður sagði þá getur hann ekki spilað lokaleikina með BATE, mikilvæga leiki um landstitilinn í Hvíta-Rússlandi.

„Það er nánast útilokað því miður. Ef þetta brotnar alveg kostar það einhverja mánuði frá en hann á að geta jafnað sig á þessu á einhverjum vikum."

Smelltu hér til að hlusta á Willum Þór Þórsson í Arnarhóli
Athugasemdir
banner
banner
banner