þri 20. júlí 2021 14:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hannes að mæta sínum gömlu félögum: Stórt og mikilvægt tímabil á mínum ferli
Hannes Þór
Hannes Þór
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valsliðið
Valsliðið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes mætir sínum gömlu félögum
Hannes mætir sínum gömlu félögum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur mætir norska liðinu Bodö/Glimt í annarri umferð Sambandsdeildarinnar og fer fyrri leikur liðanna fram á Origo vellinum á fimmtudag.

Fótbolti.net heyrði í Hannesi Þór Halldórssyni, markverði Vals og fyrrum leikmanni Bodö/Glimt, í dag og spurði út í einvígið. Hannes lék með norska liðinu fyrri hluta árs 2016 á láni frá hollenska félaginu NEC. Hannes var þá að koma til baka eftir axlarmeiðsli og var að undirbúa sig fyrir EM.

Þvílíkt spenntur að mæta gömlu félögunum
Hvernig líst þér á þetta verkefni?

„Mér líst mjög vel á þetta, er þvílíkt ánægður með þennan drátt og gaman að mæta mínum gömlu félögum. Að fara aftur til Bodö og spila leik þar, ég er bara þvílíkt spenntur fyrir þessu.”

Gengið var ekki í kortunum
Margt breyst hjá félaginu síðan þú varst hjá félaginu.

„Ég held að völlurinn sé sá sami en þeir hafa hitt á eitthvað ótrúlegt af því að í grunninn er þetta tiltölulega lítið lið í norsku deildinni, mjög óvænt að þeir hafi tekið deildina og straujað yfir hana í fyrra. Þeir hafa hitt á einhverja frábæra blöndu og eru að gera einhverja ótrúlega hluti þarna. Þetta var ekki alveg í kortunum þegar ég var þarna. Þetta er lið sem hefur verið í neðri hluta, fellur stundum en nær einu og einu góðu sísoni þar sem liðið er í efri hlutanum en aldrei meistarakandídatar. Þannig að þeir hafa verið að gera eitthvað rétt.”

Munu bera virðingu fyrir Val
Hvernig finnst þér möguleikarnir í þessu?

„Ég held að möguleikarnir séu alveg ágætir en ég held að þetta sé lið sem kemur öðruvísi inn í þetta heldur en mörg af þessum stóru liðum sem íslensku liðin hafa mætt. Það hefur stundum verið þannig að ákveðnir hlutir eru íslenska liðinu í hag eins og að liðin séu ekki á miðju tímabili, mögulega ákveðið vanmat og hitt liðið fílar ekki gervigrasið og svona. En Bodö er á miðju tímabili og er lið á þeirri stærðargráðu að þeir bera virðingu fyrir okkur sem andstæðingi og finnst gaman að vera í Evrópukeppni. Þeir spila á gervigrasi sjálfir og ég held að það verði mjög erfitt að eiga við þá. Miðað við styrkleikana á liðunum þá eigum við möguleika.”

Fór með virkilega jákvæðar minningar í farteskinu
Hvernig minningar áttu frá tímanum í Bodö?

„Frábærar. Þetta var stórt og mikilvægt tímabil á mínum ferli þótt ég hafi ekki verið lengi þar, það kom mér í gang fyrir Evrópumótið. Ég kynntist góðu fólki þarna og það gekk vel. Ég fór þaðan með virkilega jákvæðar minningar í farteskinu og náði góðu sambandi við þetta fólk sem hefur boðið mér að koma oft þangað aftur eftir veruna þarna. Það hefur verið í sambandi öðru hvoru og það var mjög gott samband sem myndaðist þarna.”

Er gott að byrja á heimavelli eða skiptir það engu máli?

„Það skiptir engu máli.”

Tapið gegn ÍA á laugardag, hefur það áhrif komandi inn í þennan leik?

„Ég held að leikurinn á móti ÍA bara kveiki í mannskapnum og muni hjálpa okkur í þessum leik ef eitthvað er,” sagði Hannes.
Athugasemdir
banner
banner
banner