Helgi Sigurðsson, þjálfari ÍBV, var ánægður með framlag liðsins í 2-2 jafnteflinu gegn Þór en veðuraðstæður í Eyjum voru afar erfiðar.
Lestu um leikinn: ÍBV 2 - 2 Þór
Eyjamenn voru taldir afar líklegir til að fara upp fyrir tímabilið en liðið hefur gert níu jafntefli í sumar og vegur það ansi mikið en jafntefli var aftur staðreyndin í dag.
Helgi var þrátt fyrir það ánægður með stigið og taldi það sanngjarnt en liðið á fimm leiki eftir og virðist möguleiki liðsins lítill á að fara upp.
„Erfiðar aðstæður í dag og hundsvekktur með að komast tvisvar yfir og þeir jafna tvisvar. Þetta voru gríðarlega erfiðar aðstæður og maður vissi aldrei hvert boltinn var að fara þannig þetta var erfiður leikur fyrir bæði lið en vantaði gæði út frá aðstæðum. Í heildina litið kannski sanngjarnt," sagði Helgi.
„Það var bara þannig að vindurinn stýrði leiknum í dag og erfitt að spila fótbolta í svona veðri. Bæði lið voru að reyna, menn voru að leggja sig hundrað prósent fram og reyna að gera hlutina vel. Margt tókst og sumt ekki og eftir sitjum við með eitt stig eins og oft áður sumar."
Halldór Páll Geirsson, markvörður ÍBV, fékk að líta rauða spjaldið undir lok leiks fyrir tæklingu á Alvaro Montejo. Helgi var ekki sáttur með þann dóm.
„Það er hægt að rífast í dómaranum hingað og þangað en þú færð ekkert fyrir það. Ef hann dæmdi rautt þá er það rautt en mér fannst hann vera mikið að dæma aukaspyrnur á okkur í seinni hálfleik en hann hafði engin afgerandi áhrif á leikinn. Við erum ósáttir með að hafa fengið þetta rauða spjald. Þetta er brot en hann er samt að fara frá markinu."
Næsti leikur Eyjamanna er gegn Þrótturum.
„Við lítum á það þannig að við ætlum að fara í næsta leik til að vinna. Það er alltaf markmiðið og við hættum ekki. ÍBV er stór klúbbur og við þurfum að halda áfram og við fáum ekki meira út úr þessum leik og næst er að sækja sigur á móti Þrótti," sagði Helgi í lokin.
Athugasemdir