þri 22. nóvember 2022 13:57
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Tjáði sig um ummæli Rúnars Kristins - „Veit ekki alveg hvað ég á að lesa í þetta"
Sindri í æfingaleik gegn KR fyrir tímabilið.
Sindri í æfingaleik gegn KR fyrir tímabilið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég er mjög sáttur við það að Rúnar Kristinsson hafi viljað fá mína krafta, hvort sem það hafi verið í viku eða allt tímabilið
Ég er mjög sáttur við það að Rúnar Kristinsson hafi viljað fá mína krafta, hvort sem það hafi verið í viku eða allt tímabilið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markmaðurinn Sindri Kristinn Ólafsson ræddi við fjögur félög áður en hann ákvað að skrifa undir hjá FH. Félögin voru Keflavík, FH, KR og KA. Sindri ákvað að skipta yfir í FH eftir að hafa leikið með Keflavík allan sinn feril.

Sindri ræddi við Fótbolta.net á dögunum og ræddi um áhuga annarra félaga á sér.

„Ég myndi ekki segja að ég hafi verið nálægt því að fara til KA. Það var samtal við framkvæmdastjórann Sævar, það náðist ekki neitt langt. Þeir sömdu svo við Kristijan Jajalo sem var frábær fyrir þá í lokin. Ég hefði alveg tekið samtalið við KA, þeir eru að gera góða hluti og allt svoleiðis og eru í frábærum málum með markmenn eins og staðan er," sagði Sindri.

„Ég átti fund með KR líka, með Rúnari og Bjarna Guðjóns. Þeir heilluðu mig mikið, en það féll upp fyrir sig, hvort sem það hafi verið frá Rúnari og Bjarna eða frá stjórn er ég ekki alveg viss. Rúnar kom heiðarlega fram sem ég er sáttur með."

Rúnar tjáði sig um viðræðurnar við Sindra í viðtali við Fótbolta.net í haust. Rúnar sagði að KR hefði bakkað út úr viðræðunum. „Hann er flottur strákur, við vorum mjög áhugasamir en svo var eitthvað sem sagði okkur að við ættum aðeins að bíða. Því miður þá kláraðist það mál ekki. Það vorum við sem bökkuðum úr því," sagði Rúnar meðal annars. Hvað fannst Sindra um ummæli Rúnars?

„Ég veit ekki alveg hvað ég á að lesa í þetta hjá Rúnari, hvort að hann hafi verið ósáttur með að hafa ekki náð að klára þetta. Ég veit ekki hvort að þetta kom að ofan eða frá honum. Ég ætla bara að lesa í það að Rúnar hefði mögulega viljað klára þetta en ekki fengið það. Ég er mjög sáttur við það að Rúnar Kristinsson hafi viljað fá mína krafta, hvort sem það hafi verið í viku eða allt tímabilið. Hann er frábær maður og Bjarni Guðjóns kom líka mjög hreint fram. Ég erfi þetta ekki neitt við þá," sagði Sindri.

Sindri er eins og fyrr segir búinn að semja við FH og Rúnar Kristinsson gaf í skyn í umræddu viðtali að Beitir Ólafsson tæki allavega eitt tímabil í viðbót með KR.
Sindri talar mjög opinskátt um stöðuna í Keflavík: Tel það vera peningavandamál sem er mjög súrt
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner