mán 23. janúar 2023 22:20
Brynjar Ingi Erluson
England: Kane jafnaði markametið í sigri á Fulham
Harry Kane fagnar 266. marki sínu fyrir Tottenham
Harry Kane fagnar 266. marki sínu fyrir Tottenham
Mynd: Getty Images
Fulham nýtti ekki færin
Fulham nýtti ekki færin
Mynd: Getty Images
Fulham 0 - 1 Tottenham
0-1 Harry Kane ('45 )

Tottenham Hotspur lagði Fulham að velli, 1-0, í 21. umferð ensku úrvalsdeildarinnar er liðin áttust við á Craven Cottage í Lundúnum í kvöld.

Fulham ætlaði sér stóra hluti og skapaði sér færin til þess í leiknum en Hugo Lloris þurfti að sjá við Bobby Reid, Harrison Reed og Willian áður en Kane gerði sigurmark leiksins.

Heung-Min Son gaf boltann á Kane sem hljóp við vítateigslínuna áður en hann skaut boltanum í hægra hornið.

Kane skoraði 266. mark sitt fyrir Tottenham og jafnaði þar með markamet Jimmy Greaves og var Kane nálægt því að bæta það snemma í síðari hálfleik en Bernd Leno varði skalla hans aftur fyrir endamörk.

Aleksandar Mitrovic fékk gott færi þegar fimmtán mínútur voru eftir en þá skallaði hann fyrirgjöf Tom Cairney rétt framhjá markinu.

Kane gat gert út um leikinn þegar rúmar tíu mínútur voru eftir en skot hans framhjá. Undir lok leiksins reyndi varamaðurinn Manor Solomon verulega á Lloris í markinu er hann hamraði boltanum í átt að marki. Frakkinn sá boltann seint en tókst að bjarga gestunum í tæka tíð.

Lokatölur 1-0 Tottenham í vil. Liðið er í 5. sæti með 36 stig, þremur stigum á eftir Manchester United sem situr í 4. sætinu. Fulham er í 7. sæti með 31 stig.


Athugasemdir
banner
banner