mið 24. nóvember 2021 10:33
Elvar Geir Magnússon
Norskir fréttamenn handteknir í Katar
Frá Doha í Katar.
Frá Doha í Katar.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Norsku sjónvarpsmennirnir Halvor Ekeland og Lokman Ghorbani voru handteknir þegar þeir voru að yfirgefa Katar. Þeir höfðu verið að vinna að umfjöllun um aðbúnað verkafólks í landinu þar sem verið er að undirbúa HM sem hefst eftir eitt ár.

Ekeland og Ghorbani vinna fyrir NRK og voru handteknir á sunnudagskvöld. Þeir voru svo leystir úr gæsluvarðhaldi á þriðjudag og flugu frá landinu síðar sama dag.

Ekki hefur verið nákvæmlega greint frá ástæðu handtökunnar.

„Við vorum yfirheyrðir en erum fyrst og fremst ánægðir með að vera komnir aftur til Evrópu. Þetta voru erfiðir tímar. Við munum funda með NRK og finna úr ýmsum hlutum áður en við tjáum okkur frekar," segir Ekeland.

NRK hefur farið fram á útskýringu á því að starfsmenn þeirra voru handteknir. Sjónvarpsstöðin segir óásættanlegt að frjáls og gagnrýnin umfjöllun um stærsta íþróttaviðburð heimsins leiði til handtöku.

Aðbúnaður farandverkamanna í Katar hefur verið gagnrýndur harðlega í aðdraganda HM. Fjölmargir hafa látið lífið í Katar frá því þau tíðindi bárust að mótið yrði haldið þar í landi. Það hafa verið fréttir um það að verkamenn séu að vinna lengi í miklum hita án þess að fá nægilega mikið magn af mat og vatni.
Athugasemdir
banner
banner
banner