Bayern finnst óraunhæft að geta fengið Varane - Werner tilbúinn að hafna United - Sesko til Arsenal? - Klopp hrifinn af Malen - Van de Beek á förum
banner
   fim 01. júní 2023 12:30
Haraldur Örn Haraldsson
„Maður hefur margoft á kvöldin farið grátandi á koddann"
Lengjudeildin
watermark Arnór Gauti Ragnarsson.
Arnór Gauti Ragnarsson.
Mynd: Raggi Óla
watermark Arnór Gauti í leik með Hönefoss.
Arnór Gauti í leik með Hönefoss.
Mynd: Hönefoss
watermark Arnór Gauti í leik með Fylki árið 2020.
Arnór Gauti í leik með Fylki árið 2020.
Mynd: Raggi Óla
watermark Arnór Gauti í leik með Breiðablik árið 2018.
Arnór Gauti í leik með Breiðablik árið 2018.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Arnór Gauti með liðsfélögum sínum úr Aftureldingu.
Arnór Gauti með liðsfélögum sínum úr Aftureldingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Arnór Gauti og strákarnir úr Tiltalinu.
Arnór Gauti og strákarnir úr Tiltalinu.
Mynd: Haraldur Örn
Arnór Gauti Ragnarsson, leikmaður Aftureldingar, var gestur í hlaðvarpsþættinum Tiltalið í vikunni þar sem hann talaði um hina hliðina og ferilinn til þessa.

Meðal annars ræddi hann um erfiðan tíma á sínum ferli þar sem hann hætti að njóta þess að spila fótbolta.

„Það var einhvern veginn að deyja meira og meira í manni, neistinn og áhuginn. Ég díli við þvílíkan frammistöðukvíða og fyrir alla leiki var ég bara á nálum," segir Arnór en hann hefur þurft að eiga við erfið meiðsli á sínum ferli. Oft þegar allt virtist ganga vel þá lenti hann í slíkum meiðslum sem höfðu mikil áhrif á hann.

„Það situr svo ótrúlega mikið í manni að finnast að maður á eitthvað skilið en þetta er einhvern veginn bara ekki að gerast. Maður var búinn að vera laminn niður svo ótrúlega oft, og svona kvíði kominn inn í manni - svona af hverju er ég að þessu? Og endalaus svona sjálfsefi. Það er einmitt þegar ég loksins gef mig, þegar ég slít hásin. Þá fer ég í bara algjöra naflaskoðun, vil ég halda áfram? Ég var bara mjög langt niðri, bara þunglyndi. Hvað er maður að gera við líf sitt? Maður er búinn að eyða svo ótrúlega miklum tíma og orku í þetta. Það eru svo mörg kvöld sem maður hefði frekar getað verið með vinum sínum að gera einhverja vitleysu, en maður átti leik eða æfingu daginn eftir."

Þjálfari Arnórs sendi hann til Íþróttasálfræðings
Þegar Arnór slítur hásin sækir hann ráð hjá Magnús Má Einarssyni, þjálfara sínum, en hann ráðleggur honum að fara til íþróttasálfræðings.

„Ég er búinn að vera síðan þá hjá íþróttasálfræðingi, sem er búinn að gefa mér punkta og búinn að hjálpa mér mjög mikið að koma til baka, sem allt önnur manneskja. Maður var bara mjög langt niðri, og vildi bara ekkert spila fótbolta aftur því þetta var bara kvíðavaldandi," segir Arnór.

Arnór talar um að hans mat er að flestir leikmenn fylgist ekki mikið með umfjöllun um sjálfan sig til þess að verða ekki fyrir of miklum áhrifum þess. En þegar Arnór var í jafn djúpum dal og hann var í á þessum tíma leyfði hann sér að kíkja á þessa umfjöllun sem gerði bara illt verra.

„Þá fékk maður svo mikla gagnrýni. Trúin á sjálfum mér var svo ógeðslega lítil, því maður er náttúrulega alltaf sinn stærsti gagnrýnandi. Þannig ég sjálfur var búinn að brjóta mig svo mikið niður, að ég trúði því ekki að ég ætti þetta skilið. Með öll færin sem ég fékk, það eina sem ég hugsaði um var bara að þetta er ekki að fara inn, þú veist það er ekki séns að ég skori úr þessu. Þetta (umfjöllunarefni) að horfa á svona og fá svona gagnrýni er ekki gott fyrir mann sem er svona langt niðri og er ekki með neina aðra hjálp."

Það var orðið það slæmt fyrir Arnór að þegar hann klúðraði færi hugsaði hann strax út í það að þá yrði hann gagnrýndur í fjölmiðlum. Einnig að hann myndi eiga erfitt með svefn því hann myndi bara hugsa um færin sem hann klúðraði.

„Sú hugsun keyrir heilann á mér í kaf. Svo er þetta bara orðið normið að þú sem manneskja átt bara ekki þig skilið, sem er svo ótrúlega óhollt fyrir hausinn á þér og á ungu íþróttafólki. Andlegi parturinn af íþróttum er svona 100% erfiðari en líkamlegi, af því þetta er bara stanslaus barátta við sjálfan þig og aðra."

Það eru eiginlega allir orðnir kvíðasjúklingar
Andlegi hluti íþróttarinnar hefur verið töluvert til umræðu upp á síðkastið. Arnór talar af sinni eigin reynslu og reynslu vina sinna í fótbolta að það sé gríðarlega mikilvægt að það séu sálfræðingar í vinnu hjá félaginu.

„Þessi partur af fótboltamanneskju er miklu stærri en menn halda, að opna á þessa umræðu er rosalega mikilvægt, sérstaklega í nútíma samfélagi. Því það eru allir eiginlega orðnir kvíðasjúklingar, að geta opnað sig við einhverja manneskju sem þú treystir, sem er það mikilvægasta. Að þú getir treyst henni fyrir þessum vandamálum og hvernig þú ert að hugsa. Af því að í mörg ár hef ég lokað fyrir þessar hugsanir til annara. Mamma mín og pabbi vissu þetta ekkert og maður hefur margoft á kvöldin farið grátandi á koddann því ég átti bara ekkert eftir andlega. Þetta er svo mikið svar fyrir svo mörgum spurningum, að geta leitað í svona einstaklinga. Þar sem þetta í 99% tilfella hjálpar svo mikið."

Arnór talaði einnig um hversu erfitt það var að ákveða að opna sig um þetta. Hann talaði við móður sína fyrir viðtalið um það hvort það væri sniðugt að opinbera sig á þennan hátt, því það gæti verið litið á hann sem veikburða manneskju.

„Þróunin er að fara í svo góða átt. Talandi um kynslóðaskiptin, þá er pabbi minn ættaður frá Eskifirði, í 13 manna fjölskyldu, í þriggja herbergja íbúð. Hann hætti í grunnskóla 12 ára til þess að fara út á sjó og hefur bara farið þetta á hnefanum. Hann á núna byggingarfyrirtæki og hefur það ógeðslega gott. En ég get ímyndað mér í denn, ef einhver gæi væri að tala um þetta í hlaðvarpi, hversu erfitt það er að spila fótbolta. Ég veit ekki alveg hvernig því væri tekið."

Er þetta bara ekki komið gott?
Þegar gagnrýnisraddir koma úr öllum hornum, þar á meðal frá sjálfum sér, getur það verið erfitt að halda hausnum góðum og Arnór talaði um að hann hafði farið það langt niður að hann sæi ekki virði í sjálfum sér.

„Þegar maður var á sínu versta, þá einmitt leitaði maður bara svolítið í þessi komment. Til að sannfæra sig sjálfan að maður ætti þetta skilið. Maður var bara oft titrandi á koddanum bara, er þetta ekki bara komið gott eða? Bara ég, persónan ég. Á maður ekki bara láta mig... bara eitthvað svona bull... Þetta var ótrúlega dimmur dalur. Þá nærist hausinn á því að sjá eitthvað slæmt um sig, sem gerir náttúrulega bara illt verra. En að einhver út í bæ segir að þú ert ekki nógu góður eða ættir bara að gera þetta eða hitt, það á ekki að skipta neinu máli. Þú ert bara það sem þú ert og þú átt bara að gera það sem þú gerir."

Arnór talaði um það hversu ánægður hann var með það að geta opinberað sig á þennan hátt og biðlar einnig til þeirra sem eiga bágt að leita sér hjálpar.

Viðtalið í heild sinni má finna í spilaranum hér fyrir neðan og einnig á öllum helstu hlaðvarpsveitum, þar ræðir hann nánar um ferilinn til þessa.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið.

Þá er hægt að nálgast upplýsingar um Píeta samtökin hérna.
Tiltalið: Arnór Gauti Ragnarsson
Athugasemdir
banner
banner
banner