
FH vann sterkan 2-0 sigur á Selfoss í kvöld í 7. umferð Bestu deildar kvenna. Guðni Eiríksson, þjálfari FH, var að vonum sáttur í leikslok.
„Gríðarlega sáttur með þrjú stig og það er komið smá 'run' á liðið og það er jákvætt og við héldum hreinu þriðja leikinn í röð og það er jákvætt, þannig það er fullt af jákvæðum punktum sem við tökum úr þessum leik," sagði Guðni.
Lestu um leikinn: FH 2 - 0 Selfoss
FH liðið pressaði Selfoss mjög hátt í fyrri hálfleiknum, Guðni var mjög ánægður með spilamennsku liðsins í fyrri hálfleiknum sérstaklega.
„Mér fannst fyrri hálfleikurinn frábær, mér fannst hann mjög vel settur upp og stelpurnar skiluðu sínu. Seinni hálfleikur, ég er ekki eins ánægður með hann. Algjör óþarfi að hleypa þeim eitthvað inn í þetta, en það er stundum svona í stöðunni 1-0. Við hefðum átt að koma okkur í þægilegri stöðu í fyrri hálfleik, skora tvö mörk allavega."
Guðni segir FH hjartað vera það sem skóp sigurinn í kvöld.
„FH hjartað skóp sigurinn, aftur vinnum við í grunnþáttum knattspyrnunnar og það skiptir öllu máli. Það er hægt að tala um taktík og svo framvegis, en ef þú vinnur ekki tæklinguna, baráttuna, viljann, ef þú hleypur ekki meira en andstæðingurinn þá lendiru í basli. FH liðið sigraði þar í dag og þess vegna unnum við leikinn," sagði Guðni.
Nánar er rætt við Guðna í spilaranum hér fyrir ofan.