Birkir Már Sævarsson átti sannkallaðan stórleik þegar Valur vann 5-0 sigur gegn erkifjendum sínum í KR í Bestu deildinni í dag.
Lestu um leikinn: Valur 5 - 0 KR
Birkir, sem er 38 ára gamall, gerði sér lítið fyrir og lagði upp þrjú mörk í leiknum. Hann verður fertugur á næsta ári.
„Þetta er hinn fullkomni dagur fótboltalega séð," sagði Birkir Már eftir leik en hvernig er hann enn í þessu magnaða standi á þessum aldri?
„Ég er nýorðinn 38 ára, við skulum hafa það á hreinu. Ætli þetta sé ekki bara það að ég er með góð gen og hugsa vel um mig? Þetta er þessi gamla klisja. Genin eru góð, vissulega. Gulli frændi minn spilaði þangað til hann var 87 ára eða eitthvað. Þetta er í ættinni."
Birkir er hættur í A-landsliðinu en hvað myndi hann segja ef hann fengi símtal frá Age Hareide fyrir gluggann núna í júlí?
„Nei, það er búið. Það er fínt að vera í fríi þegar landsliðið er að spila. Við erum með miklu betri hægri bakverði en mig í landsliðinu. Þeir geta fengið að spila og ég fer í sumarbústað eða eitthvað á meðan," sagði Birkir léttur.
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.
Athugasemdir