Fimm lið tryggðu sig áfram í 8-liða úrslit Fótbolti.net bikarsins í kvöld og er nú farið að skýrast hvaða lið verða í pottinum en dregið verður í 8-liða úrslitin í hádeginu á morgun.
KFG vann heldur óvæntan 3-2 sigur á Ægi á Samsung-vellinum í Garðabæ.
Heimamenn voru ekki lengi að koma sér í gírinn. Adrían Baarregaard Valencia skoraði strax á 3. mínútu með laglegu skoti í nærhornið.
KFG fékk nokkur úrvalsfæri til þess að hreinlega gera út um leikinn í fyrri hálfleiknum. Bóas Heimisson átti skot sem Andri Þór Grétarsson og fékk síðan boltann aftur og setti hann í þverslá.
Staðan í hálfleik 1-0 fyrir KFG sem náði að bæta við öðru strax í upphafi síðari hálfleiks.
Djordje Biberdzic var felldur í teignum og fór hann sjálfur á punktinn en Andri varði. Andri var hins vegar farinn af línunni og vítaspyrnan endurtekin og var Djordje ekki á því að láta Andra verja aðra spyrnu. Hann setti hann aftur í hægra hornið og kom KFG í 2-0.
Garðbæingar hömruðu járnið á meðan það var heitt. Adrian gerði annað mark sitt og þriðja mark KFG. Atli Rafn Guðbjartsson fór í ljóta tæklingu en dómarinn beitti hagnaði og upp úr honum skoraði Adrian með góðu skoti í nærhornið.
Síðasta hálftímann komust Ægismenn betur inn í leikinn. Aron Daníel Arnalds minnkaði muninn úr vítaspyrnu og fimm mínútum fyrir leikslok setti Róbert Kolbeins Þórarinsson boltann í eigið net.
Ægismenn leituðu og leituðu að jöfnunarmarki en fundu það ekki og lokatölur þvi 3-2 fyrir KFG sem er komið í 8-liða úrslitin. Heldur óvænt þar sem Ægir er á toppnum í 2. deild en KFG í 9. sæti deildarinnar.
Sjö mörk og dramatík í Breiðholti
Kormákur/Hvöt komst áfram eftir mikla dramatík með því að vinna Árbæ, 4-3, á Domusnovavellinum í Breiðholti.
Tvö mörk voru skoruð á einni mínútu. Brynjar Óli Axelsson kom Árbæingum yfir á 6. mínútu eftir gott hlaup en skömmu síðar jafnaði Abdelhadi Khalok eftir sendingu frá Jóni Gísla Stefánssyni.
Jón Gísli kom gestunum yfir á 24. mínútu eftir sendingu Helistano Ciro Manga og áður en hálfleikurinn var úti skoraði Sigurður Pétur Stefánsson þriðja markið.
Gunnþór Leó Gíslason náði að koma Árbæingum aftur inn í leikinn á 63. mínútu og gaf það liðinu enn meiri kraft er Sergio Francisco Oulu, leikmaður Kormáks/Hvatar, sá rautt fyrir að taka sóknarmann niður sem var að sleppa í gegn.
Kristján Daði Runólfsson skoraði dramatískt jöfnunarmark fyrir Árbæinga á lokamínútum leiksins og allt stefndi í framlengingu, en þá gerðist stórfurðulegt atvik.
Ibrahima Jallow, markvörður Árbæinga, kýldi Sigurð Bjarna Adnegaard í jörðina og vítaspyrna dæmd. Jallow sá aðeins gult spjald fyrir. Kristinn Bjarni Andrason skoraði úr vítinu við mikinn fögnuð gestanna og liðið búið að bóka sæti sitt í 8-liða úrslitin.
Stólarnir hentu Vogamönnum úr leik
Tindastóll, sem spilar í 3. deildinni, vann magnaðan 3-2 sigur á 2. deildarliði Þróttar Vogum á Sauðárkróksvellinum.
Svetislav Milosevic kom Stólunum í forystu á 4. mínútu leiksins með laglegri afgreiðslu.
Nóg var af færum og hiti í mönnum. Vogamenn fengu marga sénsa til að jafna fyrir hálfleik en nýttu ekki færin, og þá fengu Stólarnir líka sína sénsa.
Það færðist meira fjör í leikinn á síðasta hálftímanum. Sigurður Agnar Br. Arnþórsson jafnaði metin eftir undirbúning frá Franz Bergmanni Heimissyni en mínútu síðar kom Jóhann Daði Gíslason Stólunum aftur yfir eftir stórkostlegan undirbúning Manuel Ferriol Martínez, sem hélt boltanum á lofti áður en hann kom honum á Jóhann.
Arnar Ólafsson skoraði mikilvægt þriðja mark Tindastól þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Franz Bergmann náði að minnka muninn og fengu Vogamenn nokkur dauðafæri til að jafna en Nikola Stoisavljevic varði eins og berserkur í markinu og sá til þess að landa sigrinum fyrir heimamenn.
Ýmir kláraði Álftanes í framlengingu
Ýmir flaug áfram í 8-liða úrslitin en þó ekki fyrr en eftir framlengdan leik gegn Álftanesi, 5-2, á HTH-vellinum.
Það byrjaði hins vegar allt á afturfótunum hjá Ými sem lenti undir snemma leiks eftir að Kári Tómas Hauksson stýrði fyrirgjöf Magnúsar Ársælssonar í eigið net.
Pálmar Sveinsson tvöfaldaði forystuna er hann hljóp á sendingu inn fyrir miðverðina og skoraði. Ýmir náði að setja eitt mark fyrir hálfleik, sem reyndist afar mikilvægt fyrir síðari hálfleikinn, en markið gerði Theodór Unnar Ragnarsson eftir fasta sendingu frá Kára Örvarssyni.
Álftnesingar voru 30 sekúndum frá því að komast áfram í 8-liða úrslitin er Andri Már Harðarson fékk boltann eftir hornspyrnu og klíndi honum í netið.
Þetta tók allan vind úr Álftnesingum sem fengu á sig þrjú mörk á nokkrum mínútum í fyrri hluta framlengarinnar. Baldvin Dagur Vigfússon kom Ými yfir áður en Alexander skoraði tvö mörk á tveimur mínútum eftir slakan varnarleik Álftnesinga.
Alexander og Baldvin skoruðu tvö mörk til viðbótar í seinni hluta framlengingarinnar en skemmtuninni var ekki lokið því Sveinn Sær Vattnes Ingólfsson náði að skora tvö mörk með stuttu millibili fyrir Álftanes.
Heil sjö mörk í framlengingu. Áhorfendur fengu allt fyrir peninginn og rúmlega það!
Ólsarar skoruðu þrjú
Víkingur Ólafsvík vann Reyni Sandgerði, 3-1, á Ólafsvíkurvelli.
Asmer Begic skoraði fyrir Ólsara á 27. mínútu en Bergþór Ingi Smára jafnaði tveimur mínútum síðar.
Á síðustu tíu mínútum leiksins skoruðu þeir Ellert Gauti Heiðarsson og Ingvar Freyr Þorsteinsson, og sigldu Ólsurum örugglega áfram.
<Úrslit og markaskorarar:
Álftanes 4 - 7 Ýmir
1-0 Kári Tómas Hauksson ('3 , sjálfsmark)
2-0 Pálmar Sveinsson ('41 )
2-1 Björn Ingi Sigurðsson ('45 )
2-2 Andri Már Harðarson ('90 )
2-3 Baldvin Dagur Vigfússon ('98 )
2-4 Alexander Örn Guðmundsson ('100 )
2-5 Alexander Örn Guðmundsson ('102 )
2-6 Alexander Örn Guðmundsson ('109 )
2-7 Baldvin Dagur Vigfússon ('110 )
3-7 Sveinn Sær Vattnes Ingólfsson ('112 )
4-7 Sveinn Sær Vattnes Ingólfsson ('116 )
Lestu um leikinn
KFG 3 - 2 Ægir
1-0 Adrían Baarregaard Valencia ('3 )
2-0 Djordje Biberdzic ('46 , víti)
3-0 Adrían Baarregaard Valencia ('50 )
3-1 Aron Daníel Arnalds ('60 , víti)
3-2 Róbert Kolbeins Þórarinsson ('85 , sjálfsmark)
Lestu um leikinn
Árbær 2 - 3 Kormákur/Hvöt
1-0 Brynjar Óli Axelsson ('6 )
1-1 Abdelhadi Khalok El Bouzarrari ('7 )
1-2 Jón Gísli Stefánsson ('24 )
1-3 Sigurður Pétur Stefánsson ('45 )
2-3 Gunnþór Leó Gíslason ('63 )
Rautt spjald: Sergio Francisco Oulu, Kormákur/Hvöt ('70) Lestu um leikinn
Tindastóll 3 - 2 Þróttur V.
1-0 Svetislav Milosevic ('6 )
1-1 Sigurður Agnar Br. Arnþórsson ('64 )
2-1 Jóhann Daði Gíslason ('65 )
3-1 Arnar Ólafsson ('80 )
3-2 Franz Bergmann Heimisson ('85 )
Lestu um leikinn
Víkingur Ó. 3 - 1 Reynir S.
1-0 Asmer Begic ('27 )
1-1 Bergþór Ingi Smárason ('29 )
2-1 Ellert Gauti Heiðarsson ('79 )
3-1 Ingvar Freyr Þorsteinsson ('90 )
Athugasemdir