Stórliðin berjast um Rodrygo - Villa hættir að eltast við Jackson - Tottenham heldur áfram að reyna við Savinho
   lau 23. ágúst 2025 22:31
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Brynjólfur funheitur rétt fyrir landsleiki - Davíð Snær á skotskónum
Brynjólfur Willumsson
Brynjólfur Willumsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Snær Jóhannsson
Davíð Snær Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Brynjólfur Willumsson var á skotskónum þegar Groningen heimsótti PSV í þriðju umferð hollensku deildarinnar í dag. Brynjólfur hefur skorað þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum. Hann er að minna á sig en það er landsleikjahlé í næsta mánuði.

PSV náði forystunni en Brynjólfur sá til þess að staðan var jöfn í hálfleik þegar hann fékk boltann vinstra megin í teignum og skoraði með góðu skoti í fjærhornið.


PSV kom hins vegar af krafti í seinni hálfleikinn og náði 4-1 forystu áður en Groningen náði að klóra í bakkann, 4-2 lokatölur. Groningen er með þrjú stigi í 11. sæti.

Nökkvi Þeyr Þórisson var ónotaður varamaður í 3-0 sigri Sparta Rotterdam gegn Go Ahead Eagles. Sparta er með sex stig í 5. sæti.

Benoný Breki Andrésson var ónotaður varamaður í 2-1 sigri Stockport gegn Burton. Stockport er í 5. sæti með tíu stig eftir fimm umferðir en Plymouth er í 19. sæti með þrjú stig.

Hinrik Harðarson spilaði fyrri hálfleikinn í 2-1 tapi Odd gegn Kongsvinger í næst efstu deild í Noregi. Odd er með 23 stig í 11. sæti eftir 20 umferðir. Davíð Snær Jóhannsson klóraði í bakkann undir lokin fyrir Álasund eftir að hafa komið inn í 3-1 tapi. Ólafur Guðmundsson var ónotaður varamaður. Álasund er í 5. sæti með 32 stig.

Tómas Bent Magnússon var ónotaður varamaður í 3-3 jafntefli Hearts gegn Motherwell í skosku deildinni. Hearts er í 2. sæti með sjö stig eftir þrjár umferðir.

Kristófer Jónsson spilaði 76 mínútur þegar Triestina tapaði 1-0 gegn Alcione Milano í fyrstu umferð ítölsku C-deildarinnar. Hjörtur Hermannsson var í byrjunarliði Volos sem tapaði 2-0 gegn Aris í fyrstu umferð grísku deildarinnar.

Logi Hrafn Róbertsson kom inn á undir lokin þegar Istra tapaði 3-0 gegn Dinamo Zagreb í fjórðu umferð króatísku deildarinnar. Danjiel Djuric var ónotaður varamaður. Istra er í 9. sæti með tvö stig.


Athugasemdir