„Tilfinningin er mjög góð. Við töluðum um það fyrir leik að við erum ekki að spila um titla á hverjum einasta degi og að þetta væri keppni sem við vildum vinna," sagði Atli Sveinn Þórarinsson, þjálfari Hauka, eftir að liðið lagði ÍR í úrslitaleik B-deildar Lengjubikarsins.
Lestu um leikinn: Haukar 3 - 1 ÍR
Haukar voru grimmir frá byrjun og unnu sanngjarnan sigur. „Mér fannst strákarnir leggja það mikið á sig í dag að þetta var sanngjarnt. Þeir voru mjög hungraðir allan tímann á móti mjög góðu liði ÍR. Ég var mjög ánægður með þetta."
Haukar bættu við sig vel á gluggadeginum. Björgvin Stefánsson gekk aftur í raðir uppeldisféalgsins og þá kom Tumi Þorvarsson á láni frá HK.
„Þetta var mjög gott, en þetta var tæpt. Þetta var að gerast á síðustu mínútunum en við vorum mjög ánægðir."
Hann segir það gott að fá Björgvin aftur í félagið. „Þetta var búið að vera í deiglunni í svolítinn tíma. Hann vildi gefa þessu í séns eftir að hafa verið frá fótboltanum lengi. Hann vildi gefa þessu tækifæri aftur. Hann getur gefið okkur mikið en á töluvert í land með að vera 90 mínútur. Það kemur vonandi."
Atli segist vera með góða tilfinningu fyrir tímabilinu, liðið sé búið að leggja mikið á sig í vetur, en hann segir að 2. deildin verði erfið í sumar.
„Þetta er erfið deild. Liðin eru mörg hver dýr og vel mönnuð, með Spánverja og Serba sem eru uppaldir í akademíum hér og þar um heiminn. Það eru hörkuspilarar í þessari deild. Við erum að fara aðeins aðra leið og við höfum trú á henni," sagði Atli en það er enginn erlendur leikmaður í liði Hauka og er liðið frekar ungt.
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir