Franski sóknartengiliðurinn Enzo Millot hefur ákveðið að elta peningana til Sádi-Arabíu í stað þess að keppa í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.
Stuttgart er búið að samþykkja að selja Millot fyrir um 30 milljónir evra eftir að leikmaðurinn var í algjöru lykilhlutverki hjá liðinu á síðustu leiktíð.
Spænska stórveldið Atlético Madrid virtist vera að ganga frá félagaskiptum fyrir Millot í síðustu viku en þau áform hafa breyst. Leikmaðurinn ætlar að skipta til Al-Ahli.
Í Sádi-Arabíu mun Millot verða samherji leikmanna á borð við Ivan Toney, Galeno, Riyad Mahrez og Allan Saint-Maximin.
Tottenham sýndi leikmanninum einnig áhuga og var reiðubúið til að leggja fram tilboð, en gat svo ekki keppt við launapakkann frá Al-Ahli.
Millot er 23 ára og kom að 20 mörkum í 43 leikjum með Stuttgart á síðustu leiktíð.
Fabrizio Romano hefur sett „here we go!" stimpilinn á félagaskiptin.
30.07.2025 07:20
Atlético kaupir Millot - Lemar og Lino á förum
Athugasemdir