
„Þetta er gífurlega svekkjandi. Við ætluðum okkur að klára þennan leik en þetta var ekki alveg nógu gott ef maður ætlar að vera heiðarlegur," sagði Guðjón Pétur Lýðsson, leikmaður Grindavíkur eftir tap liðsins gegn KA í Mjólkurbikarnum í dag.
„Við börðumst eins og ljón og komum okkur inn í leikinn með ótrúlegu marki og það hefði verið gaman að koma þessu í framlengingu og gera einhver læti."
Lestu um leikinn: KA 2 - 1 Grindavík
Það kom í ljós rétt fyrir leikinn að Guðjón Pétur fer í tveggja leikja bann fyrir rauða spjaldið sem hann fékk gegn Aftureldingu í síðustu umferð Lengjudeildarinnar. Guðjón fékk fréttirnar í miðju viðtali.
„Ég átti skilið að fá rautt spjald, réttlætanlegt þegar ég sá þetta á videoi. Það má setja spurningamerki við það þegar hann reynir að sparka í andlitið á mér með hælunum. Það hækkaði aðeins blóðþrýstinginn, maður varð smá reiður og gerði það sem ég átti ekki að gera," sagði Guðjón.
„Fékk ég tvo leiki? Þetta er galið. Í fyrsta lagi sjá þeir þetta ekki, línuvörðurinn flaggar þetta, ég er með allan búkinn fyrir og hann heldur fætinum á mér, ég er að losa hann og rekst í hausinn á honum. Þetta er gott grín en ég verð bara að vera klár þegar þetta er búið."
Helgi Sigurðsson þjálfari Grindavíkur tjáði sig um bannið í viðtali sem birtist síðar í kvöld.